„Eftir því sem framboðið er minna, þeim mun síður treysta leigjendur sér til að standa á rétti sínum af ótta við að vera sagt upp sem leigjendum.“
Jón Pétur Zimsen.
Alþingi Jón Pétur Zimsen er eftirtektarverður alþingismaður. Hann heldur oft þrumuræður og segja má að hann fari stundum framúr sjálfum sér – á ógnarhraða. Hann lét til dæmis til sín taka þegar frumvarp um húsaleigulög var rætt á Alþingi. Hér má lesa alla ræðu þingmannsins.
„Frumvarpið gengur að mínu mati allt of langt í að skerða samningsfrelsi einstaklinga. Það kveður á um skyldu um að skrá alla leigusamninga hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun óháð því hvort leigusalar hafi atvinnu af útleigu eða ekki. Hér er því verið að þvinga einkaréttarlega samninga einstaklinga inn í opinbert kerfi og yfir mönnum vofa háar sektir ef ekki er farið eftir breytingunum. Samningsfrelsi er hornsteinn einkaréttarins. Af hverju þarf að ganga svona langt þegar gildandi lög veita leigjendum þegar ríka réttarvernd? Vandi leigumarkaðarins er húsnæðisskortur og sá skortur er að mörgu leyti í boði Reykjavíkurborgar sem hefur byggt húsnæði sem hentar ekki almenningi og vantar bílastæði. Það er ekki nóg að byggja ef fólk vill ekki búa,“ sagði Jón Pétur Zimsen og ögn síðar sagði hann:
„Nýjar kvaðir og flækjur á leigusala samkvæmt frumvarpinu, skráning og mögulegar stjórnvaldssektir allt að 1 millj. kr. og afturvirkni sem nær til eldri samninga, eru ekki góðar. Áhrifin verða og eru augljós. Færri vilja leigja út, framboð minnkar og leiguverð hækkar. Þetta hefur verið reynt annars staðar.“
„Vatnið finnur sér leið.“
Hinkrum aðeins. Hvers vegna telur JPZ að færri vilji leigja eignir sínar ef allt er upp á borðum? Ekki veit ég. Lesum áfram:
„Almenn samstaða hefur ríkt um að besta leiðin til að tryggja húsnæðisöryggi sé að auka framboð leiguíbúða. Ekki minnka það. Frumvarpið bannar að samið sé um breytingar á leiguverði á fyrstu 12 mánuðum tímabundins samnings. Þetta kann að hljóma vel en það er nokkuð ljóst að leigusalar munu reikna hækkanir á þessu tímabili inn í samningana og þá mun leiguverð verða hærra til að byrja með. Þetta er langlíklegasta niðurstaðan. Það er bara þannig. Vatnið finnur sér leið.“
„Vatnið finnur sér leið.“ Jónas heitinn Haralz sagði í viðtali við mig þegar við ræddum hrunið að sama hvað við setjum af lögum og reglum: „Siðleysið finnur sér alltaf farveg.“
Áfram með JPZ: „Niðurstaðan verður því hærri leiga strax í upphafi, sem bitnar á leigjendum. Það fjármagn sem leigusalarnir eru með bundið í íbúðum er ekki ókeypis og ekki hjálpar gúmmísleggja hæstvirts forsætisráðherra við að berja niður vexti og verðbólgu. Frumvarpið kveður á um að öll ákvæði þess taki til samninga sem eru í gildi 1. janúar 2026 og jafnvel samninga sem voru gerðir fyrir nokkrum árum.“
Skortur á framboði…
JPZ er virkur talsmaður leigusala. „Það er óeðlilegt og grefur undan trausti löggjafar og minnkar allan fyrirsjáanleika. Leigusalar sem gerðu samninga löngu áður þurfa skyndilega að skrá þá eða sæta mögulega háum sektum. Það er ekkert víst að allir geri sér grein fyrir þessari afturvirkni og fólk gæti fengið sektarboð í hausinn fyrir að fylgjast ekki nógu vel með, án þess þó að hafa gert í raun neitt af sér miðað við þann tíma þegar menn skrifuðu undir samningana.“
Það er svo sem komið nóg af þessu. Samt bætum við þessum kafla við:
„Húsaleigulög veita leigjendum þegar góða vernd. Skortur á framboði og veik samningsstaða leigjenda stafa af skorti á húsnæði, ekki ónægu eftirliti. Eftir því sem framboðið er minna, þeim mun síður treysta leigjendur sér til að standa á rétti sínum af ótta við að vera sagt upp sem leigjendum. Það er þannig að þegar framboð er minna og fólk er háð leigusalanum er ólíklegra að það tjái sig. Það er líklegra að markaðurinn færist inn á svartan markað. Þess vegna hafa nefndir og fyrri ríkisstjórnir einblínt á að auka framboð í stað þess að binda hendur leigusala með sífellt meiri kvöðum.“