- Advertisement -

Dagurinn hans Jóns dómsmálaráðherra

Ekki er víst hvort Jón Gunnarsson sé á síðustu metrunum sem ráðherra í ríkisstjorn Íslands. Hvað um það, hann verður í aðalhlutverki á fyrsta þingdegi að afloknu jólafríi þinganna. Þingfundur hefst klukkan þrjú í dag. Fyrst verða óundurbúnar spurningar til ráðherra. Að þeim loknum verður útlendingafrumvarp Jóns og hans fólks á dagskrá. Meðal aðstoðarfólks Jóns er Brynjar Níelsson, fyrrum þingmaður og fyrrum formaður Lögmannafélags Íslands.

Í greinagerð með frumvarpinu má lesa þetta:

„Við framkvæmd laga um útlendinga hefur komið í ljós að þörf er á að lagfæra, endurskoða og breyta allmörgum ákvæðum þeirra um alþjóðlega vernd svo að framkvæmd og meðferð mála sem undir þau falla sé skýr og gagnsæ. Gildandi lög um útlendinga, sem tóku gildi 1. janúar 2017, voru samin á árunum 2014 til 2016 en eins og nánar verður rakið síðar hafa málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd þróast töluvert síðan þá, bæði alþjóðlega og hér á landi. Mikilvægt er í síbreytilegum og lifandi málaflokki að löggjöfin sé aðlöguð þeirri þróun sem á sér stað í alþjóðasamfélaginu og þeim áskorunum sem verndarkerfið stendur frammi fyrir á hverjum tíma. Þurfa stjórnvöld sem fara með þessi málefni að geta brugðist við breyttum aðstæðum til að tryggja að verndarkerfið ráði við að afgreiða þær umsóknir sem berast á mannúðlegan og skilvirkan hátt, að fullnægjandi þjónusta sé veitt og að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru séu nýttir sem best.
    Á meðal álitaefna sem fram hafa komið undanfarin ár eru atriði sem snerta fjölgun umsókna þeirra einstaklinga sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki, málsmeðferðartími umsókna um alþjóðlega vernd, framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun, mat á hagsmunum barna og hlutverk Barna- og fjölskyldustofu við veitingu alþjóðlegrar verndar í málum fylgdarlausra barna, málsmeðferð umsókna um ríkisfangsleysi, réttindi og skyldur flóttafólks sem kemur til landsins í boði stjórnvalda og niðurfelling réttinda samkvæmt lögunum.
    Frá gildistöku gildandi laga um útlendinga hafa verið gerðar breytingar á lögunum nokkrum sinnum, þó ekki veigamiklar, og er frumvarp þetta liður í nauðsynlegri endurskoðun laganna og felur í sér efnismeiri lagabreytingar varðandi alþjóðlega vernd en gerðar hafa verið til þessa.”


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: