- Advertisement -

„Dauði þeirra er vegna seinagangs ríkisstjórnarinnar og einskis annars“

Fjögur börn sem við hefðum getað bjargað hafa verið drepin. Við höfum þau líf á samviskunni.“

Valgerður Árnadóttir.

Alþingi „Í dag eru liðnir 136 dagar síðan Ísrael réðst inn á Gaza og nú hafa 29.000 Palestínumenn, mest af þeim konur og börn, verið drepnir og um 68.000 manns eru slösuð,“ sagði Valgerður Árnadóttir sem er í þingliði Pírata.

Valgerður hélt áfram:

„Það lá fyrir í byrjun desember að 128 manneskjur hefðu fengið samþykkt að sameinast fjölskyldumeðlimum sínum á Íslandi. Þau hafa beðið í allan þennan tíma á milli vonar og ótta en enn hafa íslensk stjórnvöld ekki náð að bjarga einu einasta þeirra út af svæðinu. Hvers vegna voru íslensk stjórnvöld svona sein að senda út embættismenn til að aðstoða fólk út af svæðinu? Á einungis fáum dögum tókst sjálfboðaliðum úr röðum almennings á Íslandi að bjarga tveimur fjölskyldum, alls sex manneskjum, af Gaza-ströndinni og koma þeim hingað til lands. Þá hafa fimm komist þaðan út af sjálfsdáðum og eru komin hingað,“ sagði Valgerður.

Tíminn er naumur og hver dagur skiptir máli.

„Sendinefndin frá utanríkisráðuneytinu hefur nú verið í níu daga í Kaíró og á svæðinu en enn þá hefur þeim ekki tekist að koma neinum út af svæðinu. Hvað tefur? Hvers vegna geta sjálfboðaliðar með engin diplómatísk tengsl komið fólki til bjargar en ekki íslensk stjórnvöld?

Fjögur börn sem við hefðum getað bjargað hafa verið drepin. Við höfum þau líf á samviskunni. Dauði þeirra er vegna seinagangs ríkisstjórnarinnar og einskis annars. Ástandið í Rafah fer versnandi með hverjum deginum og fyrir aðeins fáeinum dögum lenti fjölskylda sem er á þessum lista í því að sprengja drap heila fjölskyldu í næsta tjaldi. Tíminn er naumur og hver dagur skiptir máli. Hversu mörg líf munum við hafa á samviskunni þegar yfir lýkur?“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: