- Advertisement -

Djúpstæð óhamingja meðal stjórnarliða

„Eftir að fjármálaáætlunin var afgreidd með þeim hætti sem við okkur blasir kemur forsætisráðherra í fjölmiðla og talar um að það sem sé merkilegast við þennan þingvetur sé að stjórnarliðar ætli að fara í sumarfrí á tilsettum degi. Það hafi ekki verið vert að fara inn í erfið mál á þessum tímapunkti. Aldrei þessu vant eru erfiðu málin ekki á milli stjórnarandstöðu og stjórnarliðs. Það er þessi djúpstæða óhamingja meðal stjórnarliða sjálfra sem gerir það að verkum að öllum stjórnarfrumvörpum hefur verið hent út af borðinu til þess að rýma megi húsið fyrir þá óhamingjusömu fjölskyldu sem ríkisstjórnarliðið er,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Viðreisn þegar ákveðið var að framlengja ekki kjúklingaundanþáguna við Úkraínu.

„Ég kem hingað upp til að lýsa því yfir að ég er sammála þeim sem talað hafa á þeim nótum að það sé okkur til minnkunar ef við framlengjum ekki þetta bráðabirgðaákvæði um tollfrelsi til handa Úkraínufólki,“ sagði Logi Einarsson.

„Þetta mál hefur auðvitað verið rætt mjög víða og á mörgum stöðum. Ég sendi m.a. bréf til formanns efnahags- og viðskiptanefndar, tölvupóst, fyrir rúmri viku þar sem ég hvatti nefndina til að taka málið upp á sína arma og klára það. Það er því ekki eins og þetta hafi ekki verið rætt, að ekki hafi allir verið meðvitaðir um það og þetta hafi einhvern veginn komið aftan að fólki. Þetta er búið að liggja fyrir í talsverðan tíma og ég ítreka að það er hálfskammarlegt fyrir þingið ef við förum héðan burt án þess að framlengja þetta.“

Mig langar bara að benda virðulegum forseta á að hann hefur lausn þessa máls í höndum sér. Hann hefur í höndum sér leið til að kalla saman fólkið sem stendur í vegi fyrir áframhaldandi stuðningi við úkraínsku þjóðina. Hann hefur það í höndum sér að gera einfaldlega hlé á þingfundi hér seinna í dag til að veita stjórnarflokkunum tækifæri til að halda sameiginlegan þingflokksfund þar sem þeir geta náð þeirri samstöðu sem skortir í þeirra röðum og hvergi annars staðar. Samstaðan með úkraínsku þjóðinni þarf kannski ekki meira en að þessir þrír flokkar setjist saman yfir kaffibolla og tali saman um það hvort þeir vilji styðja Úkraínu eða ekki,“ sagði Píratinn Andrés Jónsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: