- Advertisement -

Efast um hæfi formanns og varaformanns

Stjórnsýsla Samtök verslunar og þjónustu hafa, „…hafa óskað eftir upplýsingum frá innanríkisráðuneyti með hvaða hætti ráðuneytið telji formann og varaformann úrskurðarnefndarinnar uppfylla lögboðinn hæfisskilyrði.“ Hér er átt við forystu úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.

„Fyrirtæki sem starfa á fjarskipta- og póstmarkaði lúta strangri löggjöf sem tekur til starfsemi þessara fyrirtækja og hefur Póst- og fjarskiptastofnun ítarlegt eftirlit með þessum aðilum. Það liggur því fyrir að fyrirtæki á þessum mörkuðum eiga í miklum samskiptum við Póst- og fjarskipta, hvort sem það er á sviði eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar eða öðrum sviðum hennar. Þá á það sama einnig við um hagsmunasamtök líkt og SVÞ, sem m.a. eru umsagnaraðilar sem stofnunin leitar til eftir atvikum vegna mála sem hún vinnur að,“ segir jafnframt í bréfi samtakanna.

Innanríkisráðuneyti svarar ekki umboðsmanni

 

 

„Starfsemi umræddrar nefndar hefur verið til skoðunar hjá embætti umboðsmanns Alþingis og hefur umboðsmaður talið ástæðu til að óska eftir upplýsingum frá innanríkisráðherra um það hvernig gætt hefði verið að hæfisskilyrðum formanns og varaformanns nefndarinnar sem skulu lögum samkvæmt fullnægja hæfisskilyrðum hæstaréttardómara. Ekki liggur fyrir hvort og hvernig ráðuneytið hefur svarað umboðsmanni Alþingis.

Það er óneitanlega grundvallaratriði í réttarríki að aðilum standi til boða að fá lausn ágreiningsmála fyrir til þess bærum aðilum sem eru bæði óháðir deiluaðilum í störfum sínum og uppfylla til þess gerð hæfisskilyrði. SVÞ leggja hér sérstaka áherslu á síðara atriðið, þ.e. að úrskurðaraðilar uppfylli þau lögbundnu hæfisskilyrði sem Alþingi hefur ákveðið að skuli gilda um þá aðila og óheimilt er að víkja frá nema sérstaklega sé kveðið á um slíkt í lögum eða þau skilyrði afnumin með lögum.

Að mati SVÞ er það mikilvægt hagsmunamál fyrir bæði póst- og fjarskiptafyrirtæki sem og neytendur að hafið sé yfir allan vafa að nefndarmenn uppfylli þau lögbundnu hæfisskilyrði sem til þeirra eru gerð. Allur vafi þar á hefur ekki eingöngu áhrif á núverandi starfsemi úrskurðarnefndarinnar sem og þau mál sem síðar kunna að vera lögð fyrir nefndina heldur setur slík óvissa einnig fyrri úrskurði hennar í uppnám, þ.e. að svo miklu leyti sem einstakir nefndarmenn kunna eftir atvikum að hafa ekki uppfyllt hæfisskilyrðin. Óvissa um þessi mál hefur óneitanlega bein áhrif á starfsemi fyrirtækja á þessum mörkuðum.

Í ljósi þessa hafa SVÞ óskað eftir upplýsingum frá innanríkisráðuneyti með hvaða hætti ráðuneytið telji formann og varaformann úrskurðarnefndarinnar uppfylla lögboðinn hæfisskilyrði. Á grundvelli þeirra upplýsinga verður svo ákveðið hver næstu skref verða í málinu en eins og að framan greinir er um verulegt hagsmunamál er að ræða fyrir bæði póst- og fjarskiptafyrirtæki.“

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: