- Advertisement -

Eftirlit með bankastarfsemi er í molum

„Af því hef ég persónulega og ljóta reynslu sem er því miður ekki einsdæmi.“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir.

„Varnir neytenda á fjármálamarkaði eru litlar sem engar. Aðstöðumunur neytenda og banka er svo gríðarlega mikill að líkingin við Davíð og Golíat nær engan veginn að lýsa stöðunni eins og hún er. Það er staðreynd að eftirlit með bankastarfsemi er í molum og að þeir fara sínu fram hvað sem tautar og raular. Neytanda sem upplifir að brotið sé á sér stendur til boða að leita réttar síns fyrir dómstólum. Það er kallað jafnræðisgrundvöllur,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins, þegar hún talaði fyrir lagafrumvarpi um fasteignalán til neytenda og nauðungarsala.

Hér er hægt að lesa frumvarpið.

„Einn launamaður, kannski á meðallaunum, við það að missa eða búinn að missa heimili sitt og með galtóma vasa, gegn fjársterkum banka. Það getur aldrei orðið jafn leikur. Þetta kallar réttarríkið Ísland samt jafnræði. Þegar svo bætist við að dómarar við íslenska dómstóla virðast líta á neytendarétt eins og eitthvað ofan á brauð, álegg sem þeir hafa hálfgert ógeð á, þá er ekki von á góðu. Neytandinn má sín lítils gegn þessu valdi. Af því hef ég persónulega og ljóta reynslu sem er því miður ekki einsdæmi. Það er því okkar, löggjafans, að sjá til þess að réttindi neytenda séu svo skýr í lögum að það sé aldrei á færi dómara að snúa út úr þeim á nokkurn hátt. Þetta frumvarp er aðeins einn liður í þeirri vegferð,“  sagði Ásthildur Lóa.

„Þetta er réttlætismál. Þegar kröfuhafi hefur fengið eignina sem er að veði fyrir láninu er hann augljóslega búinn að fá það sem honum ber og hefur öll ráð í hendi sér með hvernig hann ráðstafar þeirri eign. Gerðarþolinn sem í mörgum tilfellum hefur misst heimili sitt situr hins vegar eftir í mjög slæmri stöðu. Þetta frumvarp snýst um að gefa honum tækifæri til að koma fótum undir sig á ný og það gerist ekki ef hann er með lánastofnun, sem þegar hefur svipt hann öllu, á bakinu um mörg ókomin ár. Ég treysti á stuðning ykkar allra til að svo megi verða,“ sagði Ásthildur Lóa.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: