- Advertisement -

Eftirlitsskylda þingmanna er gjörsamlega troðin í svaðið


Í stuttu máli er þetta óþolandi.

„Það þarf eitthvað að ganga á þegar meira að segja umboðsmaður Alþingis hefur á opnum fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd orð á þeirri tregðu sem er á því að framkvæmdarvaldið svari fyrirspurnum frá þingmönnum. Svo vill til að sá sem hér stendur fékk að lokum, eftir líklega níu mánaða meðgöngu, svar frá fjármálaráðuneyti í gær um heildarkostnað Landsvirkjunar vegna undirbúnings undir lagningu sæstrengs. Í stuttu máli sagt segir fjármálaráðuneytið að fyrirtækið sé undanþegið ákvæðum upplýsingalaga, sem kann vel að vera og ég er ekki búinn að kanna en ef svo er þarf að bæta úr því. Hins vegar er talað um að fyrirspurn undirritaðs um sæstreng varði viðskiptahagsmuni og viðskiptaleyndarmál Landsvirkjunar og ég velti fyrir mér fyrir hverjum það leyndarmál er. Er það fyrir landsmönnum eða ímynduðum keppinautum?“

Það var Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki sem sagði þetta á Alþingi fyrir fáum augnablikum. „Í stuttu máli er þetta óþolandi. Landsvirkjun er komin í hóp með þeim fyrirtækjum, Landsbankanum, ohf.-unum o.fl., þar sem eftirlitsskylda þingmanna er gjörsamlega troðin í svaðið. Þetta verður ekki þolað, herra forseti, og nú verðum við að fá forseta í lið með okkur um að eftirlitsskyldu þingmanna sé viðurkennd og höfð í heiðri en ekki forsmáð eins og nú er,“ sagði hann.

Félagi hans Birgir Þórarinsson talaði á sömu nótum:


Ég kom hér síðast upp og benti á að það tók fjármálaráðherra eitt og hálft ár að svara fyrirspurn minni um Arion banka.

„Ég vil taka undir það sem Þorsteinn Sæmundsson nefndi og hvetja þingheim og forseta til að taka alvarlega þær athugasemdir sem umboðsmaður Alþingis hefur komið á framfæri varðandi þann verulega drátt sem oft vill verða á því að fyrirspurnum alþingismanna sé svarað. Þetta er eins og háttvirtur þingmaður sagði óþolandi og lítilsvirðing við þingheim. Ég kom hér síðast upp og benti á að það tók fjármálaráðherra eitt og hálft ár að svara fyrirspurn minni um Arion banka. Nú er ég með aðra fyrirspurn um framkvæmdir Landsbankans, nýjar höfuðstöðvar Landsbankans, fyrirspurn sem ég lagði fram í mars á þessu ári. Þar kom ég m.a. inn á það hvert markaðsvirði lóðarinnar væri, hvort byggingin væri skynsamleg og hvaða rök mæltu með því að byggja á þessum stað. Ekkert svar hefur borist enn þá en á sama tíma og í skjóli nætur í sumar hófust framkvæmdir við þessa sömu byggingu. Þetta er, verð ég að segja, herra forseti, alger lítilsvirðing við Alþingi.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: