- Advertisement -

„Ég fæ æluna upp í háls“

Einn stjórnmálamaður hefur lýst því þannig að lífeyrissjóðir fólksins hafi „gamblað“ í félagi við útrásarmennina.

Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Ég fæ æluna upp í háls að hlusta á fulltrúa úr atvinnulífinu eins og Þorsteinn Víglundsson sem bullar tóma vitleysu um að verkalýðshreyfingin hafi viljað knésetja Icelandair. Eina sem verkalýðshreyfingunni gekk til var að verja hinn heilaga samningsrétt hins vinnandi manns.

En flugfélagið með fullri aðkomu og stuðningi Samtaka atvinnulífsins gerðu harða atlögu að því að brjóta niður samningsrétt launafólks með því að segja öllum flugfreyjum upp og segjast ætla að „semja“ bara við „einhvern“ annan, en löglegt stéttarfélag sem fer með samningsumboð fyrir flugfreyjur. Þetta mál var og er miklu stærra en bara þessi deila Icelandair við flugfreyjur, það er mjög mikilvægt að allt launafólk á íslenskum vinnumarkaði átti sig á því.

En ömurlegt að fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins skuli voga sér að tala um að verkalýðshreyfingin hafi ætlað að knésetja flugfélagið, þegar hann svo sannarlega veit betur.

Mikilvægt að Þorsteinn Víglundsson gleymi því ekki að græðisvæðing atvinnulífsins var nærri búin að knésetja lífeyrissjóði launafólks í hruninu, en þar töpuðust eins og margir muna 500 milljarðar af lífeyrir launafólks. Einu sem eiga að skammast sín eru þeir fulltrúar atvinnurekanda sem óðu um lífeyrir launafólks á skítugum skónum fyrir hrun og skildu eftir sig blóðuga slóð.

Rétt að rifja upp nokkur atriði sem fram koma í Rannsóknarskýrslu Alþingis um lífeyrissjóðina, en þar segir m.a. orðrétt:

„Fyrirtækjasamsteypurnar hafi gjarnan verið sterkar í samtökum atvinnurekenda og Gunnar Páll segist hafa haft á tilfinningunni að þær „hnipptu í“ sína fulltrúa. Já takið eftir fulltrúar atvinnurekenda hnipptu í sína fulltrúa inní stjórnum lífeyrissjóðanna.

Nokkur atriði úr Rannsóknarskýrslunni um lífeyrissjóðina:

Gunnar Páll segist hafa haft á tilfinningunni að þær „hnipptu í“ sína fulltrúa.

„Gunnari Páli Pálssyni finnst eftir á að hyggja of mikil þjónkun hafi verið hjá lífeyrissjóðunum við viðskiptalífið, ekki síst vegna þátttöku atvinnurekenda í stjórnum sjóðanna. Fyrirtækjasamsteypurnar hafi gjarnan verið sterkar í samtökum atvinnurekenda og Gunnar Páll segist hafa haft á tilfinningunni að þær „hnipptu í“ sína fulltrúa.

Í kjölfar bankahrunsins hefur verið talsverð umræða um stöðu íslensku lífeyrissjóðanna og hlutverk þeirra í íslensku samfélagi. Hvaðan koma peningarnir?“ Þess var oft spurt, sérstaklega á erlendri grundu þar sem fjárfestingar Íslendinga voru til umræðu. Svarið var gjarnan sterkir lífeyrissjóðir!

Jafnframt hafa þeir legið undir ámæli fyrir að hafa þegið boðsferðir og gjafir frá fjármálafyrirtækjum og stórfyrirtækjum í viðskiptalífinu. Látið hefur verið að því liggja að óeðlileg tengsl hafi verið milli sumra forsvarsmanna sjóðanna við lykilmenn í íslensku viðskiptalífi, sem aftur hafi haft áhrif á fjárfestingarstefnu þeirra.

Almennir starfshættir: Gjafir og boðsferðir. Frá bankahruninu hafa íslenskir lífeyrissjóðir fengið mikla gagnrýni fyrir að hafa starfað náið með helstu forkólfum viðskiptalífsins og fyrir að þiggja boðsferðir og gjafir með ógætilegum hætti. Einn stjórnmálamaður hefur lýst því þannig að lífeyrissjóðir fólksins hafi „gamblað“ í félagi við útrásarmennina.

…fengu bara senda tékka…

Í gögnum frá Kaupþingi kemur fram að Tryggvi Tryggvason, forstöðumaður eignastýringar Gildis, hafi farið í laxveiðiferðir á vegum Kaupþings. Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segist jafnframt hafa þegið laxveiðiferðir á síðustu árum og nafn hans kemur fram í gögnum Kaupþings í laxveiðiferð sumarið 2007.

Þrátt fyrir að Þorgeir telji slíkt ekki hafa haft áhrif á neitt í hans störfum vekja slík ferðalög óneitanlega áleitnar spurningar um trúverðugleika forstjóra lífeyrissjóðs. Hann setur sig í tiltekna stöðu þar sem auðveldlega má tengja ákvarðanir sjóðsins við umræddar laxveiðiferðir.

Lífeyrissjóðir hafa stundum verið gagnrýndir fyrir að hafa ekki beitt sér meira fyrir góðum starfsháttum innan viðskiptalífsins og haft sig lítt frammi á aðalfundum. Þeir hafi verið óvirkir fjárfestar að þessu leyti. Seta Gunnars Páls í stjórn Kaupþings er undantekning frá því: „En ég svaraði alla vega fyrir mig að það væri þá alla vega heiðarlegra fyrir þá stofnun sem ég var í forsvari fyrir að ég legði þá mína persónu þar á höggstokkinn ef eitthvað misfærist […]að þá mundi ég falla með, en stjórnarformenn í öðrum lífeyrissjóðum eru kannski bara ráðherrar í dag. Þeir mótmæltu ekkert á aðalfundum […]fengu bara senda tékka. Mér finnst kannski líka siðferðisbrestur í því, að mótmæla á daginn en taka við greiðslum að nóttu til. En ég sit í þessum pytti miðjum og ég er ekkert hlutlaus í þessu. Ég hefði betur farið að þessum ráðleggingum, að segja mig frá þessu öllu saman.“

Utanríkisráðherra nefndi lífeyrissjóðina og erlent lánsfé…

„Án þess þó að hafa rannsakað það nákvæmlega, þá held ég að það hafi ekkert íslenskt fyrirtæki farið í útrás, án þess að lífeyrissjóðir hafi verið þar meðal helstu fjárfesta,“ sagði Sigurður Einarsson í ræðu um hlutverk lífeyrissjóðanna árið 2008 og gjarnan var talað um þátt lífeyrissjóðanna í útrásinni. Utanríkisráðherra nefndi lífeyrissjóðina og erlent lánsfé á fundi í Kaupmannahöfn vorið 2008 aðspurð um það hvaðan útrásarmenn fengju fjármagn og forsvarsmenn Viðskiptaráðs nefndu þá einnig í ræðu og riti. Þeir forsvarsmenn lífeyrissjóðanna sem rannsóknarnefndin kallaði til viðtals telja lífeyrissjóðina ekki hafa verið gerendur í útrásinni. En misnotuðu þá stjórnmálamenn og forsvarsmenn viðskiptalífsins lífeyrissjóðina í þessari umræðu, þegar allt fram að hruni var vísað í sterka stöðu lífeyrissjóðanna til að réttlæta erlendar fjárfestingar? „Ég held ég bara verði að taka undir þetta, maður […] bara svona einhvern veginn mengaðist af þessu.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: