- Advertisement -

„Ég hef skömm á svona heilbrigðiskerfi“

Inga Sæland fór mikinn í ræðustól Alþingis í gær.

„Talandi um heilbrigðisþjónustu þá er tvennt sem mig langar að nefna. Það er þessi mismunun gagnvart börnunum okkar, þeim sem eru það ólánsöm að vera staðsett hjá fátækum foreldrum. Þau eiga fátæka foreldra sem hafa ekki efni á nauðsynlegum aðgerðum fyrir þau í munni, tannréttingum t.d. Ég tala af eigin reynslu, ég var með ömmustrák í fyrsta tímanum í morgun. Það er verið að líma járn í munninn á honum af því að hann er með þetta allt eitthvað skakkt og snúið eins og gengur. Hann mun ekki alast upp og verða fullorðinn maður allur skakkur og snúinn í munninum, hann mun fá fínar og fallegar tennur. Kostnaðurinn verður á bilinu 1,5–2 millj. krónur og Sjúkratryggingar greiða 150.000 krónur,“ sagði Inga.

Inga var ekki hætt:

„Hvers lags samfélag er það sem mismunar fátæku fólki þannig að það hafi ekki efni á því að leita læknisaðstoðar fyrir börnin sín? Það er vægast sagt ömurlegt samfélag svo ekki sé meira sagt. Mig langar líka að benda á stað sem heitir Reykjalundur, einhver sá frábærasti staður sem ég hef nokkurn tímann komið á. Þar er þverfaglegt teymi sem heldur utan um okkur og hjálpar okkur og endurhæfir svo að við komumst út í samfélagið. Hvað eru Sjúkratryggingar Íslands að gera núna? Segja upp samningum við Reykjalund í sambandi við starfsendurhæfingu. Og hverjir fá þessa starfsendurhæfingu? Það eru 50 einstaklingar á hverju ári sem er úthýst frá VIRK starfsendurhæfingu, 50 einstaklingar sem eru óhreinu börnin hennar Evu sem enginn vill skipta sér af og enginn kærir sig um. Þar af leiðandi er ekki þess virði, virðulegi forseti, að Sjúkratryggingar Íslands haldi þessum samningi áfram, alveg sama þó að í lok dags séu þessir einstaklingar færir um að vinna 30%, 40%, 50% starf og taka þátt í samfélaginu okkar. Ég hef skömm á svona heilbrigðiskerfi.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: