- Advertisement -

Ég verð rosalega reið

„…að ætlast til þess að frami sumra kvenna hvíli á ömurlega illra launaðri vinnu annara kvenna.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:

Forsætisráðherra segir í viðtali við Fréttablaðið í dag: 
„Ég man eftir því hvernig var talað af óvirðingu um konurnar í Kvennalistanum og Kvennaframboðinu. Það er ekkert langt síðan við upplifðum leikskólabyltingu sem gerði okkur kleift að þurfa ekki að velja á milli þess að eiga börn og sinna starfi sínu og frama.“

Ég ætla að leyfa mér að nota tækifærið og segja frá því að Eflingar-kona með 23 ára flekklausan starfsferil í leikskóla reknum af Reykjavíkurborg, fær í laun 306.043, eftir að hafa greitt skatta og gjöld. Eftir að hafa starfað sem ómissandi manneskja, ein af mikilvægustu starfskröftum samfélagsins, kona sem menntar og gætir barnanna okkar af kærleik og blíðu, eftir að hafa sungið, lesið, gefið að borða, svæft, skipt á bleyjum, farið í útikennslu, hreyfistundir, listastundir, hópstarf og svo mætti telja lengi lengi, í heil 23 ár fær þessi kona inn á reikninginn 306.000 krónur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Konur í umönnunarstörfum eiga skilið sína eigin byltingu.

Í mínum huga er það óvirðing. Og meira að segja mjög mikil. Eiginlega svo mikil að ég verð, já, ég ætla að leyfa mér að segja það, rosalega reið þegar ég hugsa um hana. 
En ég er líka mjög vongóð um að nú sé komið að næsta skrefi í „leikskólabyltingunni“ okkar hér á Íslandi; að nú sé komið að því að þeim manneskjum (sem eru flestar konur) sem halda leikskólunum gangandi með sinni miklu, mikilvægu og oft mjög erfiðu vinnu verði loksins greidd laun sem sannarlega endurspegla mikilvægi starfsins.
Vegna þess að það er einfaldlega ekki hægt að halda áfram að ætlast til þess að frami sumra kvenna hvíli á ömurlega illra launaðri vinnu annara kvenna. Það eru ekki kvenréttindi sem hægt er að stæra sig af. 

Konur í umönnunarstörfum eiga skilið sína eigin byltingu, byltingu sem snýst um efnahagslegt réttlæti, um að öll eigi skilið mannsæmandi laun fyrir unna vinnu.




Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: