- Advertisement -

Eignaupptaka í boði ríkisstjórnarinnar

Á sama tíma bindur skerðingarófétið þá verst settu í sárafátækt.

„Er það ekki gróft fjárhagslegt ofbeldi að skatta og skerða tekjur og lífeyrissjóðslaun öryrkja og aldraðs fólks í almannatryggingakerfinu um 75–100 prósent? Að halda 26.000 kr. eða minna, jafnvel engu, eftir af hverjum 100.000 kr. eru ekki skattar og skerðingar heldur eignaupptaka. Hvers vegna hefur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn undanfarna áratugi byggt upp svona arfavitlaust kerfi og viðhaldið því?“

Þannig talaði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi.

„Það er þrátt fyrir endurtekin loforð fyrir kosningar um að breyta þessari grófu eignaupptöku. Lögþvingaður eignaupptökuvarinn lífeyrissjóður er notaður til að skerða lífeyrislaun almannatrygginga, eftir fyrstu 25.000 kr. bitnar það verst á þeim sem síst skyldi, láglaunafólki og þar er stærstur hluti konur. Þingfararkaup er nú 1.210.368 kr. á mánuði og ef það væri skattað og skert á sama hátt og lífeyrislaun væru eftir í vasa okkar 314.600 kr., jafnvel ekki króna eftir að keðjuverkandi skerðingar yrðu dregnar frá.“

Vont er þeirra ranglæti en verra er svokallað réttlæti.

Guðmundur Ingi: „Hvers vegna er öllu snúið á hvolf í þessum stórfurðulega bútasaumaða óskapnaði sem almannatryggingakerfið er orðið, kerfi sem ríkisstjórnir síðustu áratuga hafa komið á, viðhaldið og gert viljandi svo flókið að bara tölva getur reiknað út keðjuverkandi skerðingar til þeirra verst settu og sett þá beint í sárafátækt? Á sama tíma borga þeir sem grætt hafa á tá og fingri af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar lítið sem ekkert í skatt af ofurgróðanum, ekki króna tekin af þeim í skerðingar eða keðjuverkandi skerðingar af milljarðagróðanum. Á sama tíma bindur skerðingarófétið þá verst settu í sárafátækt í almannatryggingakerfinu í boði ríkisstjórnarinnar. Vont er þeirra ranglæti en verra er svokallað réttlæti sem kemur bara fram rétt fyrir kosningar, innantóm loforð um að nú sé þeirra tími kominn og þeirra réttlæti nú loksins komið, en eftir kosningar fer það allt á sömu leið, auðurinn streymir beint í vasa auðmanna. Flokkur fólksins segir: Fólkið fyrst. Og sjáum til þess í eitt skipti fyrir öll að fjölskyldur, börn og einstaklingar þurfi ekki að lifa við fátækt á Íslandi.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: