- Advertisement -

Eitruð karlmennska og innrásin í Úkraínu

Jódís Skúladóttir:
„Það hefur verið okkar skoðun í VG að aukinn vígbúnaður og vígvæðing og hernaðarbandalög séu ekki besta leiðin til að tryggja frið í heiminum.“

„Ef einhverjum einhvers staðar var ekki orðið ljóst hvað orðin eitruð karlmennska merkja þá er innrásin í Úkraínu dálítið vel til þess fallin að lýsa því. Konur, börn, gamalt fólk, fatlað fólk eru þau sem liggja í valnum á meðan við hlustum á og sjáum í fjölmiðlum, bæði hérlendis og erlendis, umræðu á pari við það sem gerist á spjallþráðum tölvuleikja um það hvers lags vopn eru notuð og af hvaða krafti eigi að nota þau. En fórnarlömbunum er, held ég, alveg sama hvað sprengjan heitir þegar hún fellur. Ef það er eitthvað sem atburðir síðustu daga sýna okkur er það hversu gríðarlega verðmætur friðurinn er fyrir allt okkar líf; fyrir daglegt líf, viðskipti, menningu, íþróttir,“ sagði Jódis Skúladóttir Vinstri grænum.

„Það er eðlilegt að fyllast vanmætti og finna fyrir hjálparleysi. Við eigum að vera meðvituð um gæfu okkar að alast upp og búa hér í friðsælu landi. Vanmátturinn og hjálparleysið gerir ábyrgð okkar enn skýrari. Það hefur verið okkar skoðun í VG að aukinn vígbúnaður og vígvæðing og hernaðarbandalög séu ekki besta leiðin til að tryggja frið í heiminum. Friðarhyggja snýst um að friður sé það mikilvægasta sem þurfi að tryggja í alþjóðasamskiptum. Ekkert er jafn skaðlegt fyrir umhverfi, velferð og heilsu fólks og hernaður. Við á Íslandi erum að mörgu leyti í forréttindastöðu í alþjóðasamfélaginu og okkur ber því að gera það sem í valdi okkar stendur til að deila auðlegð okkar með þeim sem mest þurfa á að halda. Ísland á að axla ábyrgð og koma fólki í neyð til hjálpar, bæði með því að taka vel á móti fólki á flótta og styðja fólk í því að geta lifað með reisn annars staðar í heiminum,“ sagði Jódís.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: