- Advertisement -

Ekki nógu mikið talað um Framsókn

„Mér finnst ekki nógu mikið talað um Framsóknarflokkinn. Er Framsóknarflokkurinn þó kannski valdamesti flokkur landsins, valdamesti flokkurinn á þingi, flokkurinn sem ævinlega stjórnar því hvaða ríkisstjórnir ríkja hér og hvernig þær eru settar saman og hann er alltaf þar í miðjunni. Samt er eins og flokkurinn sé einhvern veginn ósýnilegur í almennri þjóðfélagsumræðu, næstum því jafn ósýnilegur og almennir þingmenn VG eru í umræðunni um Namibíuhneykslið.“

Það var Guðmundur Andri Thorsson Samfylkingu sem þannig talað á Alþingi í dag.

Sigurður Ingi Jóhannsson, hélt ræðu sem var tímamótaræða.

„Mér finnst rétt að bæta úr þessu og vekja athygli á Framsóknarflokknum. Á dögunum var haldinn miðstjórnarfundur í Framsóknarflokknum þar sem formaður flokksins, hæstvirtur samgönguráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hélt ræðu sem var tímamótaræða því að hann boðaði, hafi ég skilið hann rétt, sinnaskipti flokksins í mikilvægasta hagsmunamáli þjóðarinnar. Ég sé ekki betur en að formaður Framsóknarflokksins nálgist í þeirri ræðu okkur jafnaðarmenn í stefnumörkun sinni. Í ræðu sinni hamraði hann m.a. á mikilvægi þess að taka upp auðlindaákvæði í stjórnarskrá þar sem skýrt verði að auðlindir landsins séu í eigu þjóðarinnar. Hann sagði líka að kvótakerfið í sjávarútvegi hefði ekki verið innleitt til að nokkrir einstaklingar gætu orðið ofurríkir. Jafnframt sagði hann að það hefði ekki verið búið til svo þeir fjármunir sem urðu til við aukna verðmætasköpun færu á flakk milli reikninga á aflandseyjum,“ sagði Guðmundur Andri og hann sagði svo þetta:

„Virðulegi forseti. Ég sé ekki betur en að það sé að myndast nýr þingmeirihluti fyrir því að koma á löngu tímabærum umbótum í sjávarútvegi. Ég hlakka til þess að vinna með Framsóknarflokknum og öðrum umbótaöflum að því að koma á meiri jöfnuði og meira réttlæti öllum landsmönnum til hagsbóta. Ef svo heldur fram sem horfir gætum við horft fram á þá tíð að flokkur stórútgerðarinnar verði hér á þingi vinalaus.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: