- Advertisement -

Ekki tilefni til þessarar dramatíkur

Stjórnmál  „Það hefur verið stríður straumur opinberra starfa frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar, ekki síst undanfarin ár, án þess að það hafi fengið sömu athygli eða sömu viðbrögð einsog gerist þegar rætt er um færslu í hina áttina. Fjölmörg opinber störf hafa verið flutt af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar á undanförnum árum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í samtalið við Reykjavik síðdegis fyrir skömmu, þar sem rætt var um flutning ríkisstofnana milli landshluta.

Forsætisráðherra sagði það hafa gerst að mörgum öðrum sviðum en í heilbrigðiskerfinu. „Það er búið að flytja svo mörg störf af landsbyggðinni að það veikir innviðina í kringum landið. Innviði sem þurfa að vera sterkir svo hægt sé að byggja ofan á þá.“

Varðandi flutning Fiskistofu sagði Sigmundur Davíð: „Það var ekki tilefni til, til að búa til þessa dramatík í málinu.“ Hann sagði umfjöllunina um flutning Fiskistofu hafa verið þannig, að halda mætti að til stæði að flytja allt starfsfólkið norður á einu bretti. „Setja þau uppí rútu og keyra þau norður. Það er búið að lýsa því yfir að höfuðstöðvarnar verða fluttar, eftir sem áður verður fjöldi starfa í Reykjavík, og raunar er Fiskistofa á fimm stöðum á landinu.“ Sigmundur sagði að verkefnastjórn, sem skipuleggur flutninginn, sé að taka til starfa og í henni muni starfsfólk Fiskistofu eiga sæti.

„Það er eðlilegt að það séu skiptar skoðanir um svona mál, þó ég telji að flestir hljóti að vera sammála um að það þurfi að vera meira jafnvægi í byggð í landinu. Það er áhyggjuefni hvað er komin mikil skekkja í þetta og það er líka áhyggjuefni fyrir höfuðborgarbúa.

Hann nefndi að í Osló og nágrenni búi um fjórðungur norsku þjóðarinnar og það kalli á sérstakar aðgerðir og að þeir gangi lengra en við nokkru sinni til að reyna að breyta þessu.  „Hér er staðan sú að nærri sjö af hverjum tíu íbúum býr á höfuðborgarsvæðinu.  Það þýðir að við nýtum ekki þau tækifæri, sem eru um allt land, eins vel og ella væri hægt. Landinu öllu til heilla. Því ber að leggja áherlsu á að það má ekki skoða þetta sem svo oft gerist í þessari umræðu, og gerist núna, sem einhverskonar reiptog milli landsbyggðar og höfuðborgar. Þetta er sameiginlegt hagsmunir landsins alls, að allt landið sé sterkt.“

Forsætisráðherra talaði einnig um hversu brýnt er að landsbyggðin,ekki síst Vestfirðir, verði nógu sterk til að taka við þem tækifærum sem eru framundan í norðrinu.

Hér er hægt að hlusta á allt viðtalið.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: