- Advertisement -

Er ég vinur eða er ég ráðherra?

Björn Leví Gunnarsson skrifaði:

Það sem vantar svo í þessa frétt er að spurningunni um hvaða skilaboð það sendir út í samfélagið, að ráðherra hringi í meintan geranda í einu stærsta spillingarmáli Íslandssögunnar og spyrji hvernig honum líði og ætli að bregðast við fréttaflutningnum, var ekki svarað. Katrín svaraði ekki spurningunni og Sigurður Ingi ekki heldur.

Katrín fór að tala um gögn málsins og hvernig það fyndist ekkert þar sem bendlaði Kristján Þór við þetta mál. Nei, enda var ekkert verið að spyrja um það. Þarna er ráðherra sjávarútvegsmála að hafa samband við forstjóra eins stærsta fyrirtækisins á hans málefnasviði út af einu stærsta spillingarmáli sem komið hefur upp. Það skiptir ekki máli hvort þeir séu æskuvinir eða hvað það er, þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð ráðherra í þessari stöðu.

Kristján Þór sagði í óundirbúnum fyrirspurnum í síðustu viku að hann ætti erfitt að gera greinarmun á því hvenær hann væri að tala sem vinur og hvenær sem ráðherra. Lausnin á því er einföld, ef þú ert í vafa þá ertu að tala sem ráðherra. Þú lætur fagmennskuna njóta vafans. Þess vegna skiptir það ekki máli hvað var í gögnum málsins. Spurningin snýst um viðbrögð ráðherra og afskipti hans af þessu fyrirtæki sem hann virðist ekki geta haldið faglegri fjarlægð frá. Hvernig það lítur út fyrir þá sem horfa á þennan gjörning sem fer þarna fram, tengslin sem búið er að viðurkenna að séu sterk og þar af leiðandi æpandi varúð vegna hagsmunaárekstra.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það fór fram epískt svig fram hjá spurningu sem var borin fram fjórum sinnum á tvo ráðherra. Svörin snérust um allt annað en spurt var um og ráðherra ásakaði spyrjanda meira að segja um að hlusta ekki á sig þegar hann var ekki að svara spurningunni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: