- Advertisement -

Er nokkurt vit í því að flytja þessar gríðarlegu fjárhæðir frá fjöldanum sem skuldar til hinna fáu sem eiga?

Háir raunvextir eru eitt helsta drifhjól samþjöppunar auðs.

Ragnar Önundarson skrifar:

Hlutverk Seðlabanka er að sjá til þess að framleiðslutækin séu nýtt sem best og stöðugleiki ríki hvað varðar verðlag og gengi. Átökin um tekjuskiptinguna eru það sem truflar Seðlabankann mest í þessu.

Vextir eru eitt helsta stjórntækið. Sagt er að kollegar íslenska seðlabankastjórans öfundi hann af þeirri sérstöðu að hér er vöxtur og því aðstæður til að hafa raunvexti sem virka. Alls staðar í kringum okkur er deyfð og vextir því í lágmarki. Skuldarar þrá lægri vexti, en sparifjáreigendur ekki. Skuldarar eru ungir og hafa sterka rödd, sparifjáreigendur ekki. Af hverju er ekki orðið við kröfum skuldara?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Innan hóps sparifjáreigenda eiga 10% fjöldans 90% fjárins.

Háir raunvextir þýða gríðarlega, árvissa, langvarandi eignatilfærslu frá skuldurum til sparifjáreigenda. Innan hóps sparifjáreigenda eiga 10% fjöldans 90% fjárins. Háir raunvextir eru eitt helsta drifhjól samþjöppunar auðs. Skv. framansögðu eru efnahagsleg rök fyrir raunvöxtunum og þeir eru afleiðing vaxtar. Félagslegu rökin eru önnur. Er nokkurt vit í því að flytja þessar gríðarlegu fjárhæðir frá fjöldanum sem skuldar til hinna fáu sem eiga? Á það að vera svona erfitt að eignast íbúð? Er það æskilegt að barnafjölskyldur búi við þennan þrönga kost? Af hverju erum við að hverfa frá „séreignarstefnunni“ sem einkenndi okkar samfélag?

Munum nú að alla síðustu öld vorum við með eignarskatt. Hann var lagður á hreina eign, þ.e. eignir umfram skuldir. Með honum lögðu hinir efnameiri fram skerf til félagslega kerfisins. Á sama tíma voru vextir af húsnæðislánum lengst af frádráttarbærir. Saman vann þetta gegn þeirri eignatilfærslu sem lýst var að ofan. Getur verið að þau stjórnvöld sem við veljum til að móta þróun samfélagsins séu svo skammsýn og grunnhyggin að þau átti sig ekki á afleiðingum þess að kippa þessu fyrirkomulagi úr sambandi ? Getur verið að kjörnir fulltrúar okkar skilji ekki samhengið? Getur verið að þeir sem þá voru á þingi hafi látið ,,plata sig” með uppnefninu „ekknaskattur“? Það sem vantaði var jafnvægi. Skattleysismörk eignarskatts áttu að samrýmast séreignarstefnunni og rúma venjulegt hús, bíl og sumarbústað. Skatturinn átti líka að vera hóflegur, ofan þessara skattleysismarka.

„Hliðarráðstafanir“ er heitið á aðgerðum til að draga úr neikvæðum afleiðingum af óhjákvæmilegri beitingu hagstjórnartækja. Skuldarar eiga ekki, frekar en aðrir, að eyða orku sinni í að biðja um það sem ekki er unnt að veita. Þeir eiga að knýja á um hliðarráðstafanir.

Miklir annmarkar voru á framkvæmd eignarskatts. Það voru kærkomin rök þeirra sem safna auði og vilja ekki leggja fram til velferðar heildarinnar. Gríðarlegar framfarir í rafrænum framtölum síðustu árin vekja hins vegar vonir um að lagfæra megi annmarkana. Á meðan er sjálfsagt að vinna gegn sjálftöku ofurlauna með hátekjuskatti og hámarki á frádráttarbærni slíkra launa til eins og sama starfsmanns.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: