- Advertisement -

Hvort er meiri ógn, óstöðugt verðlag eða skortur á fjármálastöðugleika?

Marinó G. Njálsson:

Ég veit, að til þess hóps telst ekki ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, miðað við að öll úrræði hennar eiga að koma seinna og eru hvorki fugl né fiskur. Ekki eru það atvinnurekendur og hlutafjáreigendur sem telja það heilagaskyldu sína að maka krókinn og hækka hagnað sinn.

Fjármálastöðugleiki er ekki í hættu, en samt eiga allir að passa sig.

Nokkurn veginn þannig eru skilaboð fjármálastöðugleikanefndar til þjóðarinnar. Vegna hækkunar vaxta, þá eiga bankarnir að vera góðir við lántaka. Vegna þess að tímabil fastra vaxta er að renna sitt skeið, þá eiga heimilin að passa sig.

Í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar segir m.a.:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Myndast hefur ógn við fjármálastöðugleika.

„Verðbólga og skörp hækkun vaxta leiðir þó til þyngri greiðslubyrði þeirra sem hafa tekið lán með breytilegum nafnvöxtum.“

Err, nei, verðbólgan ein og sér leiðir ekki til þyngri greiðslubyrði lána með breytilegum nafnvöxtum. Það er skörp hækkun vaxta Seðlabankans sem leiðir til þessarar þyngri greiðslubyrði. Kannski nefndarmenn fjármálastöðugleikanefndar, líka peningastefnunefndar og seðlabankastjóri, þegar hann er bara í hlutverki seðlabankastjóra, ættu að lesa viðtal Heimildarinnar við Olav Guttesen, bankastjóra Betri Banka í Færeyjum, sem miðillinn birti í gær. Hann var fyrst spurður:

„Í ljósi þess að verðbólga í Færeyjum er 8 til 9 prósent og húsnæðislánavextir rúmlega helmingur af því: Hvernig þolið þið, sem banki, að hafa neikvæða raunvexti? “

Svarið hans var eins og úr mínum munni, enda oft haldið þessu fram:

„Við lítum ekki á það þannig. Við borgum innistæðueigendum vexti. Tekjurnar okkar markast af vöxtunum sem við fáum af útlánum. Við erum fjármögnuð af innistæðum.“

Sem sagt, bankarnir skaðast ekkert af því að fá ekki vexti á pari við verðbólgu af útlánunum sínum. Þeir þurfa bara sinn vaxtamun. Ég er hins vegar nokkuð viss um að heilaþvottur Seðlabankans um skaðann af því að fólk borgi hófsama vexti, mun halda áfram. En svo ég segi það enn einu sinni, bankarnir skaðast ekkert meðan þeir fá sinn vaxtamun! Það sem meira er, að verðbólga er í nánast öllum löndum heims notuð til að draga úr skuldabyrði heimilanna sem hlutfall af tekjum þeirra.

En aftur að fjármálastöðugleikanum.

…fokið út í verður og vind…

Peningastefnunefnd með peningastefnumanninn Ásgeir Jónsson í fararbroddi hefur hækkað vexti svo mikið, að það sem allir hafa bent á er að verða að veruleika og fjármálastöðugleikanefnd með nefndarmanninn Ásgeir Jónsson viðurkennir loksins. Myndast hefur ógn við fjármálastöðugleika, því vextir Seðlabankans eru orðnir óhóflega háir. Snjóhengjan, sem Vilhjálmur Birgisson hefur verið óþreytandi að benda á, en peningastefnumaðurinn Ásgeir Jónsson ítrekað sagt ekki vera ógn, er hins vegar orðin að ógn við fjármálastöðugleika samkvæmt fjármálastöðugleikanefndarmanninum Ásgeiri Jónssyni. Við núverandi ástand er spurningin hvort er meiri ógn, óstöðugt verðlag eða skortur á fjármálastöðugleika?

Ásgeir Jónsson má síðan ekki gleyma því, sama í hvaða hlutverki hann er, að við endurskoðun fastra vaxta á húsnæðislánum, þá þurfa lántakar að fara í greiðslumat, skv. 23. gr. laga nr. 118/2016 um húsnæðislán til neytenda, hækki greiðslubyrði lána um meira en 20%. Vaxtahækkun úr 3% í 9% fer langt fram út þeim mörkum og líka þó hækkunin verði „bara“ í 7%. Slík hækkun mun hækka húsnæðislið vísitölu neysluverðs og óvissa um hvort lántakar standist greiðslumat mun hafa áhrif á fjármálastöðugleika. Auðvitað má redda þessu með því að breyta lögunum, en standi lántakar ekki undir hækkuninni, þá fjölgar vanskilum og fjármálastöðugleika er ógnað.

Lög um Seðlabanka Íslands byrja á orðunum:

„Seðlabanki Íslands skal stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi.“

Mér sýnist sem tvennt þetta fyrra sé fokið út í verður og vind, traustið á fjármálastarfsemi í landinu hefur nú ekki risið hátt í ein 15 ár og eftir að Seðlabankinn leyfði sölu á Borgun og Valitor til erlendra aðila, þá er spurningin hvert öryggið er. Er ég nokkuð einn um að finnast sem stjórnendur Seðlabankans séu búnir að mála sig út í horn?

Ég veit, að til þess hóps telst ekki ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Ég er alveg 100% viss um, að innan Seðlabankans vinnur vel meinandi starfsfólk sem hugsar um hagsmuni þjóðarinnar, en þegar meðalið er ekki að virka eða hafa skaðleg áhrif vegna ofskömmtunar, þá ættu menn að hugsa sig vel um áður en 14. vaxtahækkunin verður tilkynnt í ágúst (nema boðað verði til aukafundar á næstu vikum). Ég er held nú sé kominn tími til að minnka skammtinn og sjá hvort að sjúklingurinn braggist.

Og fyrst ég er byrjaður.

Sé horft til framtíðar, þá er Seðlabankinn með vaxtastefnu sinni að kynda undir enn meiri óstöðugleika á næstu árum. Hann hefur þegar stuðlað að miklum að samdrætti í húsnæðisbyggingum, þar sem engum heilvita verktaka dettur í hug að fjármagna framkvæmdir sínar á 15% vöxtum og þaðan af verra, meðan mikil óvissa ríkir um hverjir geta keypt og hve langan tíma það gæti tekið. Íbúðaskortur er þegar orðinn mikill og eykst með hverjum mánuðinum, meðan fólksfjölgun hefur líklega ekki verið hraðari frá dögum Svarta víkingsins.

Nú spyr ég seðlabankastjóra:

Hvernig ætlar bankinn að losa um þann hnút sem hann hefur verið að hnýta? Hvernig mun Seðlabankinn stuðla að því að húsnæðisframkvæmdir komist á skrið án þess að húsnæðisverð hækki upp úr öllu valdi? Eða ætlast Seðlabankinn til að einhverjir aðrir finni leiðina út úr völundarhúsi aðgerða bankans?

Ég veit, að til þess hóps telst ekki ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, miðað við að öll úrræði hennar eiga að koma seinna og eru hvorki fugl né fiskur. Ekki eru það atvinnurekendur og hlutafjáreigendur sem telja það heilagaskyldu sína að maka krókinn og hækka hagnað sinn. Þá eru bara launafólk og lífeyrisþegar eftir!

Marinó birti greinina fyrst á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt með samþykki Marinós. Myndir og fyrirsögn er Miðjunnar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: