- Advertisement -

Verðhækkanir koma að mestu fram fljótlega eftir að gerð kjarasamninga

Marinó G. Njálsson:

Kauphækkunar sem var ætlað að bæta launþegum upp kaupmáttarrýrnun launa á síðasta ári. Svo dirfist seðlabankastjóra að segja, að íslenskir launþegar taki ekki á sig verðbólguna. Hann hefði frekar átt að segja, að íslenskir laungreiðendur neiti að vinna gegn verðbólgunni.

Fyrir tæpri viku setti ég hér inn langa færslu, þar sem ég dró fram annað sjónarhorn á ýmsar fullyrðingar seðlabankastjóra í viðtali við Morgunblaðið. Tók ég meðal annars fyrir eftirfarandi:

„4. Íslenskir launþegar taka ekki á sig verðbólguna: „En hér hefur það ekki verið þannig. Hér hafa [raun]launin ekki lækkað, [raun]laun hafa hækkað í takt við verðbólgu…“

Ég kom þá með rök um að þetta væri einfaldlega röng fullyrðing hjá seðlabankastjóra og benti á, að lang oftast væri tilgangur kjarasamninga að vinna upp tapaðan kaupmátt frá síðustu kauphækkun og tryggja að verðbólga framtíðarinnar væri bætt upp með reglulegum kauphækkunum á gildistíma kjarasamninga. Þetta gerðist hins vegar oftast eftir á, þ.e. fyrst kæmu verðhækkanirnar, með þeim rýrnaði kaupmátturinn og síðan kæmu kauphækkanir, eins og ég sýni á meðfylgjandi grafi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svo dirfist seðlabankastjóra að segja, að íslenskir launþegar taki ekki á sig verðbólguna.

Bláa línan sýnir árlegar 5% launahækkanir og sú appelsínugula jafnmiklar árlegar verðlagshækkanir sem dreifast jafnt yfir allt árið. Þetta er að sjálfsögðu einföldun á veruleikanum. Svæðið á milli línanna sýnir tapaðan kaupmátt launþega á milli hækkana launa. Stærð þess jafngildir helming launahækkanna hverju sinni. Þ.e. fylgi launahækkanir verðbreytingum, þá fær launþegi í raun bara bættan helming verðbreytinganna! Hinn helminginn tekur launþeginn á sig og sá helmingur rennur til hinna ýmsu aðila sem eru hluti af aðfangakeðju neysluútgjalda launþegans.

Þar sem algengara er að verðhækkanir koma að mestu fram fljótlega eftir að kjarasamningar eru undirritaðir, þá tekur launþeginn enn meira af hækkuninni á sig, þ.e. til lengri tíma.

Samkvæmt tölum Hagstofu þá hækkuðu ráðstöfunartekjur á mann í krónum talið um 4,7% frá 1. ársfjórðungi 2022 til sama ársfjórðungs í ár. (Hafa skal þann vara á tölum Hagstofu að hún virðist miðað við alla landsmenn í útreikningum sínum, þar með talið allt niður í ómálga börn, og m.a. miðar við ca. 390.830 manns á 1. ársfjórðungi þessa árs. Einnig er ruglingslegt, að Hagstofa notar yfirskriftina „Ráðstöfunarteljur heimilanna 2022-2023“ en yfirfærir síðan tölur sínar á hvern einstakling í staðinn fyrir að yfirfæra á hvert heimili, sem væri mun nákvæmari upplýsingar.) Þrátt fyrir hækkun ráðstöfunartekna, þá dróst kaupmátturinn saman um 4,8%. Sé rýnt enn frekar í tölurnar, þá má finna út að tekjur á mann jukust um 7,6%, en þar sem gjöld á mann jukust um 11,5%, þá varð niðurstaðan að ráðstöfunartekjurnar hækkuðu um 4,7%.

Niðurstaðan er, að það tók fyrirtæki og stofnanir ekki nema 3 mánuði að hirða af fólki um helming þeirrar kauphækkunar sem náðist í kjarasamningum um mánaðamótin nóvember/desember. Kauphækkunar sem var ætlað að bæta launþegum upp kaupmáttarrýrnun launa á síðasta ári. Svo dirfist seðlabankastjóra að segja, að íslenskir launþegar taki ekki á sig verðbólguna. Hann hefði frekar átt að segja, að íslenskir laungreiðendur neiti að vinna gegn verðbólgunni.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós. Hún er birt hér með leyfi höfundar. Fyrirsögnin er Miðjunnar.

-ritstj.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: