- Advertisement -

Krónan fellur og innfluttar vörur hækka í verði / vandinn eykst í haust

Ekkert bendir til að aðgerðir ríkisstjórnarinnar leiði til þess að til verði störf í haust. Aðgerðir þeirra hafa að mestu snúist um að verja eignir fyrirtækja- og fjármagnseigenda

Gunnar Smári skrifar:

Fyrir kórónakreppuna var evran í 136 kr. en rauk upp í rúmar 160 kr. þremur mánuðum, eftir því sem alvarleiki kreppunnar varð skýrari. Þá gerðist það að krónan styrktist næsta mánuðinn, evran lækkaði í tæplega 149 kr. Þessi lækkun hefur nú gengið til baka og evran er nú aftur komin upp að 160 kr.

Hvað merkir þetta? Innflutningur mun að óbreyttu hækka um tæp 20% og verðbólgan þar með um tæp 8% eða svo. Um þriðjungur þessarar hækkunar er komin fram, megnið bíður haustsins. Verðhjöðnun erlendis gæti dregið úr þessum áhrifum, en hækkun á vöruverði vegna erfiðleika í framleiðslu getur að sama skapi leitt til verðhækkana.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En hvers vegna gefur krónan meira eftir en evran? Er Seðlabankinn ekki að spá minni samdrætti á Íslandi en spáð er á evrusvæðinu? Ætti krónan þá ekki að styrkjast. Tja, viðskipti með krónu er ekki besta mælitækið á heilbrigðis hagkerfisins. Ekki frekar en verð á hlutabréfum sé endilega góð mæling á heilbrigði skráðra fyrirtækja. En ef marka má gjaldeyrismarkaðinn þá verður kreppan verri hér en annars staðar í okkar heimshluta.

Þótt það dragi úr hættu á kreppuspíral niður á við, ef allir landsmenn láti sem við séum ekki að sigla inn í erfiða tíma, þá er líklega skynsamlegast fyrir hvern og einn að fara sér hægt. Kannski er betra að eiga peninginn í haust sem fólk er að hugsa um að eyða í gistingu og mat á túristalandinu Ísland.

Ekkert bendir til að aðgerðir ríkisstjórnarinnar leiði til þess að til verði störf í haust. Aðgerðir þeirra hafa að mestu snúist um að verja eignir fyrirtækja- og fjármagnseigenda, ekki um að búa til ný störf eða tryggja afkomu fólks sem er þessar vikurnar að hrynja niður á berar atvinnuleysisbætur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: