- Advertisement -

Ásgeir, Ásgeir og Ásgeir Jónssynir

Marinó G. Njálsson:

Kannski það ætti að halda einn fund í mánuði, þar sem peningamálanefndarmaðurinn hittir fjármálastöðugleikanefndarmanninn og seðlabankastjórann eða væri það seðlabankastjórinn sem héldi samráðsfund með hinum tveimur.

Vegna þess að laun í viðmiðunarlöndum hækkuðu ekki á síðasta ári í takt við verðbólgu í þeim, þá þarf Seðlabankinn að hækka vexti um 1,25% í maí á Íslandi. Þannig skil ég skýringu Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, á fundi Seðlabankans í morgun. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi skýring kemur fram en henni fylgir ekki að í þessum viðmiðunarlöndum er einmitt mjög mikil óánægja með lækkun kaupmáttar og verkföll eru útbreidd.

Er það virkilega svo, að nánast hálfu ári eftir að gerðir voru kjarasamningar, sem seðlabankastjóri lýsti yfir ánægju með (við vissum að vísu ekki þá, að hann var ekki í raun seðlabankastjóri, heldur nefndarmaður í fjármálastöðugleikanefnd, eins og hann skýrði út eftir á) að þá þurfi að hækka vexti. Hversu lengi á að kenna lægst launaða fólkinu í landinu um efnahagslega óreiðu, óstjórn í peningamálum, klúður Seðlabankans og aðgerðaleysi ríkisvaldsins?

Innan Seðlabankans eru þrír stólpar sem virðast ekki tala saman, hvað þá vinna saman. Tveir þeirra sérstaklega eru svo sjálfstæðir, að það virðist engin samvinna vera á milli þeirra. Þá er ég að tala um stjórnun peningamála og stjórnun fjármálastöðugleika. Helst lítur út fyrir, að seðlabankastjóri, sem situr í æðstu nefnd beggja stólpa, vinni að gagnstæðum markmiðum eftir því hvorn hattinn hann er með á höfðinu og beri ekki skilaboð á milli. Jafnframt er eins og nefndarmenn hvorrar nefndar lesi ekki skýrslur hinnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svo kom einhver skýrsla sem sagði að allt væri í góðu lagi hjá Seðlabankanum. Allt væri svo skilvirkt, nema fjármálaeftirlitið.

Peningamálanefnd ákvað árið 2020 að lækka vexti Seðlabankans mikið og fóru þeir niður fyrir 1,0% þegar þeir voru lægstir. Seðlabankastjóri, sem sat einnig í fjármálastöðugleikanefnd, sá enga ógn við fjármálastöðugleika af þessari aðgerð, enda var hann með peningamálanefndarhattinn á höfðinu þegar þetta var gert. Þessi hattur virðist þeirri náttúrugæddur að útiloka alla hugsun um fjármálastöðugleika, þegar hann er borinn á höfði. Þess vegna var ekki gripið til neinna ráðstafana til að verja fjármálastöðugleika, þó ljóst mátti að lægri vextir myndu stórauka útlán fjármálakerfisins.

Á sama hátt, áttaði seðlabankastjóri sig ekki á mögulegri ógn kjarasamninga í desember við verðstöðugleika, þegar hann bar á höfði hatt fjármálastöðugleikanefndar nokkrum dögum eftir gerð samninganna. Hann lét því grandlausan lýðinn halda að Seðlabankinn væri ánægður með kjarasamningana, en í reynd var að tjá sig „óbreyttur“ nefndarmaður í fjármálastöðugleikanefnd, sem lifir líklegast í einrúmi fjármálastöðugleikans, sem á þeirri stundu var ekki seðlabankastjóri þrátt fyrir að hafa verið skipaður í þá stöðu fyrir einhverjum árum.

Svo kom einhver skýrsla sem sagði að allt væri í góðu lagi hjá Seðlabankanum. Allt væri svo skilvirkt, nema fjármálaeftirlitið.

Ég velti fyrir mér, hvernig peningamálanefndarmaðurinn, Ásgeir Jónsson, getur unnið með fjármálastöðugleikanefndarmanninum, Ásgeiri Jónssyni, hverra yfirmaður er seðlabankastjórinn, Ásgeir Jónsson. Þetta nefnilega lítur þannig út fyrir mér, að þeir séu þrír nafnar sem starfi hjá bankanum og eigi mjög erfitt með að vinna saman. A.m.k. bera þeir ekki skilaboð á milli eða deila upplýsingum. Kannski það ætti að halda einn fund í mánuði, þar sem peningamálanefndarmaðurinn hittir fjármálastöðugleikanefndarmanninn og seðlabankastjórann eða væri það seðlabankastjórinn sem héldi samráðsfund með hinum tveimur.

Er ég kannski einn um það, að skilja ekki skilningsleysi Ásgeiranna á mikilvægi fjármálastöðugleika fyrir peningamálastjórnunina og verðstöðugleika og þar á milli verði ekki skilið? Og að öll yfirstjórn Seðlabankans verði að vera vel að sér um stöðuna á þessum þremur þáttum?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: