„Hvers vegna erum við að fara niður á við? Þetta er spurning sem við þurfum að fara yfir og fá annað álit á.“
Sigurjón Þórðarson.
„Hér er auðvitað um nokkur tíðindi að ræða og rétt að fara yfir þennan mikla niðurskurð sem er hér í kortunum og háttvirtir þingmenn hafa rætt. En ég tel rétt að fá einnig annað álit á þessa ráðgjöf því að það er ekki hægt að horfa fram hjá því að ráðgjöfin hefur minnkað um hátt í 70.000 tonn á fimm árum,“ sagði Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis.
„Þá er rétt að spyrja sig, og þá var höfuðstóllinn — menn tala hér um vexti eins og þetta séu vextir á bankabók — með hæsta móti: Hvers vegna erum við að fara niður á við? Þetta er spurning sem við þurfum að fara yfir og fá annað álit á. Sama á við um ufsann, hann fer talsvert niður á við þrátt fyrir að menn hafi ekki náð að veiða samkvæmt ráðgjöfinni. Þannig að ég bara tek það fram að hérna er vissulega um tíðindi að ræða sem við eigum að fara yfir. Hér hafa þingmenn kallað um mismunandi greiningar, jafnvel frá Noregi og út af allt öðru máli. Ég tel rétt að við förum yfir þetta mál. Þetta er stórt mál og við eigum að skoða það af alvöru hvort það sé ekki hægt að ná til botns í því hvers vegna menn eru hér að fara niður verulega í ráðgjöfinni þó að henni hafi verið fylgt út í ystu æsar síðastliðin ár.“
Guðlaugur Þór tók þátt í umræðunni og sagði:
„Það er bara þannig að náttúran…“
„Það var áhugavert að hlusta á yfirsjávarútvegsráðherrann, háttvirtan Sigurjón Þórðarson, tala hér áðan. Háttvirtur þingmaður nefndi að það ætti kannski aðeins að hlusta á ráðgjöf, talaði um vísindamennina. Það er gott vegna þess að við erum með frumvarp sem í fyrsta skipti í manna minnum kemur fram án þess að menn hafi við undirbúninginn talað við vísindamennina, talað við Hafrannsóknastofnun. Það er bara þannig að náttúran er ekkert í spotta hjá hæstvirtri ríkisstjórn, hún fer bara sínu fram, og nú reynir á hversu langt hæstv. ríkisstjórn ætlar að ganga í að fara gegn þeirri þverpólitísku samstöðu sem hefur verið í áratugi um að fylgja eftir ráðleggingum hæfustu vísindamanna. En eins og staðan er núna þá liggur hér fyrir frumvarp á Alþingi Íslendinga þar sem er hreint og klárt skrifað út að það á ekki að fara eftir ráðleggingum vísindamanna, færustu vísindamanna. Og þeir voru ekki hafðir í samráði þegar frumvarpið var samið.“