- Advertisement -

Er þreyttur á fingraleikfimi kjörinna fulltrúa

Marinó G. Njálsson skrifar:

Marinó G. Njálsson skrifar.

Þingmenn og ráðherrar sýna þjóðinni ítrekað óvirðingu með framferði sínu. Fyrrverandi efnahagsráðherra sagði fyrir 10 árum, áður en hann var gerður ráðherra, að glitt hafi í löngutöng ríkisstjórnar og þings. Það var hvorki í fyrsta sinn né það síðasta og þegar hann varð sjálfur ráðherra, þá sendi hann þjóðinni því miður oft fingurinn, enda farinn að þjóna öðrum herra en eigin samvisku og sannfæringu.

Þingmenn og ráðherrar halda þessu áfram nánast daglega (og stundum daglega), eins og þeim sé ekki sjálfrátt. Vandinn er að ekki þýðir að boða til nýrra kosninga til að reyna að losa þjóðina við þessa þingmenn og ráðherra, því hluti hennar, alveg eins og fyrir 10 árum, er svo hrifinn af þessum fingrafimleikamönnum. Engu líkara er, en að því oftar sem fingrinum er veifað, verði lotningin meiri.

Í Svíþjóð varð ungur Svíþjóðademókrati að segja af sér í vikunni fyrir að birta brandara, sem forystunni þótti óboðlegur. Já, hann birti brandarann og tók hann svo út, en varð samt að segja af sér. Á Íslandi fá ráðherrar á sig Hæstaréttardóma, hrista hausinn, segjast vera ósammála Hæstarétti og sitja fastast. Þingmenn fara á fyllerí og tala illa um fatlaða, konur og hinsegin fólk og svo rífa þeir kjaft, þegar taka skal á máli þeirra. Einn keyrir og keyrir og keyrir, eins og hann sé einhver Forrest Gump á leið strandanna á milli, allt á kostnað almennings. Svo eru það umboðsmenn ógreiddra atkvæða, sem greinilega skilja ekki lýðræðið.

Rosalega er ég orðinn þreyttur á þessari fingraleikfimi kjörinna fulltrúa. Er alveg ómögulegt, að þið getið farið að haga ykkur í samræmi við þá ábyrgð sem ykkur er falin?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: