- Advertisement -

Erum öll í þessu saman

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra skrifar:

Þetta verkefni sem við stöndum frammi fyrir mun reyna á allskonar þætti. En við ráðum vel við verkefnið.

Ljóst er að faraldurinn mun hafa áhrif á stöðu efnahagsmála. Líkt og forsætisráðherra hefur sagt „undirbúa stjórnvöld nú aðgerðir í ríkisfjármálum til að vinna gegn slaka í efnahagsmálum og sama á við um Seðlabankann. Við erum vel í stakk búin, með öflugan gjaldeyrisvaraforða, lágt skuldahlutfall og góðan aðgang að erlendu fjármagni.“

Áhrifa faraldursins og óvissa honum tengd mun koma fram snemma og af þunga í ferðaþjónustu og tengdri starfsemi. Ljóst er að þar sem staðan breytist frá degi til dags verður óhjákvæmilegt að endurmeta hana og hugsanleg viðbrögð eftir framvindu mála hér og um heim allan. Væntingar eru um að eftirspurn eftir ferðaþjónustu gæti skilað sér hratt aftur ef óvissan gengur tímanlega til baka.

Frekari aðgerðir eru til skoðunar.

Hafin er vinna við undirbúning alþjóðlegs markaðsátaks á áfangastaðnum Íslandi. Slíku átaki er ekki hleypt af stokkunum við þessar aðstæður en þarf að vera klárt þegar aðstæður gefa tilefni til.

Þá er vinna hafin við undirbúning markaðsátaks til að hvetja Íslendinga til að ferðast innanlands á næstu vikum og mánuðum.

Frekari aðgerðir eru til skoðunar.

Stjórnvöld munu gera það sem þarf til að hemja útbreiðslu veirunnar og vinna gegn áhrifum hennar á efnahagslífið. Sú vinna er í fullum gangi.

Við höfum öll hlutverki að gegna í þessum aðstæðum. Sóttvarnir virka bara ef samfélagið fylgir leiðbeiningum. Þegar ég hef ekki viljað heilsa fólki með handabandi, faðma það eða kyssa og þegar ég geng um með spritt er það ekki vegna þess að ég sé hrædd um að smitast sjálf – heilsunnar vegna. Heldur skiptir máli að við öll fylgjum leiðbeiningum til þess að hefta útbreiðsluna. Þá eru í kringum mig elskað fólk sem myndi ráða verr við að fá veiruna. Til dæmis mamma mín, sjúkraliðinn, í fyrirbyggjandi krabbameinsmeðferð, eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Við erum nefnilega öll í þessu saman.

Það skiptir líka máli að halda áfram að vera til og láta hjól atvinnulífsins snúast – í verslun, þjónustu, menningu o.s.frv.

Áfram höldum við.

Grenina birti Þórdís Kolbrún á Facebook.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: