- Advertisement -

Færri yngri kennarar eru við störf

Menntun Kennarar yngri en þrítugir voru þrettán prósent, starfandi kennara, árið 2008 en nú eru þeir aðeins rúm sex prósent. Í niðurstöðum um íslenska kennara í unglingadeildum grunnskóla kemur meðal annars fram að konur eru þar 71,9 prósent kennara en þær voru 68 prósent þeirra árið 2008. Þessi þróun er almenn í þeim löndum sem tóku þátt í könnuninni bæði árin.

Flestir kennarar njóta þess að gegna starfi sínu, engu að síður finnst þeim þeir njóta lítils stuðnings og ekki vera metnir að verðleikum.

Ein alþjóðleg rannsókn, TALIS, er gerð þar sem sjónum er beint að vinnuaðstæðum kennara og námsumhverfi í skólum. Tilgangurinn er að afla áreiðanlegra og samanburðarhæfra gagna sem geta nýst þátttökulöndunum við að móta stefnu um menntun og starfsþróun kennarastéttarinnar. Fyrsta rannsókn af þessu tagi var gerð árið 2008 og þá tóku þátt hér á landi skólastjórar og kennarar í unglingadeildum grunnskóla og árið 2013 var hún líka lögð fyrir kennara í framhaldsskólum.

TALIS rannsakar þær aðferðir sem eru notaðar við að veita kennurum endurgjöf í starfi og að hvaða leyti og hvernig komið er til móts við þarfir kennara fyrir starfsþróun. Rannsóknin varpar ljósi á viðhorf kennara til kennslu og þeirra kennsluhátta sem þeir tileinka sér í kennslu. TALIS fjallar líka um hlutverk skólastjórnenda og þann stuðning sem þeir veita kennurum, sem og að beina sjónum að ýmsum þáttum sem geta haft áhrif á starfsánægju kennara og sjálfstraust.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: