- Advertisement -

Fagna ber með Sólveigu Önnu

Verkfall er almennt ekki fagnaðarefni. – Konur sem hafa ekki átt einn einasta málsvara.

Sigurjón Magnús Egilsson skrifar:

Mikið fagna ég með Sólveigu Önnu að hótelþernur skuli komnar í verkfall. Og einmitt í dag. Innan við tíu prósent þeirra eru íslenskar. Hinar eru erlendar konur. Konur sem hafa ekki átt einn einasta málsvara. Allt þar til Sólveig Anna birtist þeim. Kjörkuð, skilningsrík og tilbúin til að berjast fyrir þeirra hönd.

Oft hefur verið ástæða til að gagnrýna Moggann. Í dag birtir Mogginn vandaða fréttaskýringu eftir Helga Bjarnason, þann fína blaðamann. Vinnuaðstaða þessara kvenna er greinilega oft mjög ábótavant. Og það sem verra er að langflestar þeirra óttast yfirmenn sína. Þeim er sýndur yfirgangur og hroki. Mannvonska.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í fréttaskýringu Helga segir, sem dæmi: „Vinnu­eft­ir­litið hef­ur gefið stjórn­end­um hót­ela 239 tíma­sett fyr­ir­mæli um úr­bæt­ur sem varða heilsu og ör­yggi starfs­fólks við hót­elþrif.“ Nú má spyrja, hvað er að fólki.

Skoðum betur: „Tel­ur Vinnu­eft­ir­litið mik­il­vægt að grípa til aðgerða og bæta vinnuaðstæður áður en starfs­fólkið verður fyr­ir heilsutjóni. Vak­in er at­hygli á því að meiri­hluti starfs­fólks­ins er kon­ur af er­lend­um upp­runa og þær séu einn viðkvæm­asti hóp­ur­inn á ís­lensk­um vinnu­markaði. Vert sé að huga sér­stak­lega að for­vörn­um og stuðningi við þann hóp.“

Látum þetta duga úr fréttaskýringunni. Þetta dugar til að skilja að víða er allt í kaldakoli.

Verkfall er almennt ekki fagnaðarefni. En í dag er það það. Að gefa þessum konum, má ekki bara segja þrælum, rödd og draga kjör þeirra og aðstæður fram í sviðsljósið er sannkallað fagnaðarefni.

Hóteleigendur kvarta og segja meira að segja að þeir hafi þegar orðið fyrir peningalegum skaða vegna verkfalls. Sem betur fer. Þeir fá þá að sjá hversu þýðingarmiklar konurnar, sem margir þeirra koma kvikindislega fram við, eru.

Það ber að þakka Sólveigu Önnu og styðja hana og hótelþernurnar í löngu tímabærri baráttu, ekki bara fyrir betri kjörum. Líka fyrir mannvirðingum.

Þessi skýringarmynd fylgir með fínni fréttaskýringu í Mogganum í dag:


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: