- Advertisement -

Fannst góð lausn að breyta Trump og Sigmundi Davíð í hænur

Donald Trump og Sigmundur Davíð:
Það er hins vegar flókið verkefni og erfitt fyrir manninn að breyta hegðun sinni, segja skilið við óhóflega neyslu og sóðaskap og ekki er það gert auðveldara af mönnum eins og Donaldi Trump og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem halda því fram að það sé engin raunveruleg hætta af hlýnun jarðar, hún sé jafnvel bara ímyndun.

Kári Stefánsson skrifar:

Mér veittist sá heiður að vera beðinn að flytja ávarp á fundi niður á Austurvelli í tilefni loftlagsverkfallsins um daginn:

Það leikur enginn vafi á því að jörðin okkar er að hlýna, hitinn að aukast. Það er ekki kenning eða ályktun heldur sýna þetta niðurstöður mælinga. Það leikur heldur ekki vafi á því að ef heimurinn okkar hlýnar að marki gætu afleiðingar þess orðið skelfilegar. Það er ályktun en hún byggir ekki bara útreikningum á því sem kann að gerast heldur líka á því að skoða það sem var á þeim tímum jarðsögunnar þegar hiti var töluvert meiri en á okkar tímum. Það er hins vegar kenning að maðurinn sé með lífsstíl sínum að leggja að mörkum til hlýnunar og sú kenning er og verður ósönnuð þótt að það sé búið að leiða að henni mjög sterkar líkur. Þessa kenningu væri nefnilega ekki hægt að sanna án þess að gera tilraun sem væri skelfilegri en svo að það væri sanngjarnt að fara fram á það við gamalmenni eins og mig að lýsa henni og ungviði eins og ykkur að hlusta á.

Þú gætir haft áhuga á þessum


Við viljum ekki, við viljum alls ekki valda afkomendum okkar þjáningu.

Hún er um margt svipuð kenningunni um að börn sem hlaupa alltaf yfir umferðargötu langt frá gangbraut og án þess að horfa til hægri og vinstri gætu lent fyrir bíl. Þú vilt ekki reyna að sanna þá kenningu, þú vilt það alls ekki. Þér nægir að hún sé að öllum líkindum sönn. Þér myndi nægja það ef það væru bara pínulitlar líkur á því að hún væri sönn til þess að gera allt sem í þínu valdi stendur til þess að börnin þín umgengust umferðargötur á allt annan máta.

Það sama á við um kenninguna um að maðurinn leggi að mörkum til hlýnunar jarðar með hegðun sinni. Það þurfa ekki að vera nema pínulitlar líkur á því að hún sé sönn til þess að okkur beri skylda til þess breyta um hegðun til þess að auka líkur á því að afkomendur okkar hafi hnött til að búa á. Við viljum ekki, við viljum alls ekki valda afkomendum okkar þjáningu. Við viljum ekki að þeir geti horft til baka með hneykslan yfir því hvernig við umgengust hnött sem var okkar þá en var ljóst að yrði þeirra seinna. Við viljum ekki að þeir hafi ástæðu til þess að rifja það upp þegar þeir hugsa til okkar að þeir hrafnar séu verstir sem gera í eigið hreiður.


Við nýtum okkur frekar atkvæðisréttinn til þess að losna við þá. Við strengjum þess heit að gleyma því ekki þegar kemur að kosningum.

Það er hins vegar flókið verkefni og erfitt fyrir manninn að breyta hegðun sinni, segja skilið við óhóflega neyslu og sóðaskap og ekki er það gert auðveldara af mönnum eins og Donaldi Trump og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem halda því fram að það sé engin raunveruleg hætta af hlýnun jarðar, hún sé jafnvel bara ímyndun. Ég var mikið að velta því fyrir mér í gærkvöldi hvernig væri best að takast á við óábyrgar blaðurskjóður eins og þá og þegar ég sofnaði fór mig að dreyma vandamálið. Og í draumnum kom hún til mín hún amma mín, Marselína Pálsdóttir frá Brettingsstöðum á Flateyjardal og sagði: „Ekki hafa áhyggjur Kári mundu bara að við Brettingar fáum eina ósk í vöggugjöf og þú er ekki búinn að nota þína. Gerðu það núna.“ Ég hlýddi henni og breytti Donald Trump og Sigmundi Davíð og skoðanabræðrum þeirra öllum í hænur og í draumnum fannst mér þetta virkilega góð lausn. Ég vaknaði hins vegar í morgun við galið í hananum sem býr í næsta húsi við mig og áttaði mig á því að þessi lausn væri óréttlát. Hænsni eru göfugar skepnur, hljómfagrar og fagurfiðraðar en viðkvæmar og því fantaskapur að láta þær þola svona karaktera sín á meðal. Þess vegna vildi ég biðja Brettinga með ónotaðar óskir og aðra göldrótta að láta þessa lausn vera. Við nýtum okkur frekar atkvæðisréttinn til þess að losna við þá. Við strengjum þess heit að gleyma því ekki þegar kemur að kosningum. Út með þá. Við ætlum að breyta um lifnaðarhætti. Við ætlum að tryggja komandi kynslóðum lífvænlegan hnött. Við ætlum að færa fórnir svo það megi verða. Og það sem meira er við ætlum að gera það þannig að þeir sem færa fórnirnar séu fólk eins og ég sem hefur efni á því, ekki þeir sem minnst mega sín í samfélaginu. Við ætlum að líta á aðgerðir í loftslagsmálum sem tækifæri en ekki byrði og nýta þær til þess að auka réttlæti í samfélaginu.

Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: