- Advertisement -

Fárviðri, blindbylur, svartaþoka, úrhelli

Sveinseyrarpóstur Sigurðar G. Tómassonar:

Verslun auglýsti á dögunum að tilboðin væru mætt. Mér varð á að spyrja hvort þessi tilboð hefðu kannski komið hjólandi?

Fórum í morgun á markaðinn hjá Nonna uppi í dal. Hittum ekki Brennholtshjón, sem við höfðum vonast til en keyptum bleikju frá Heiðarbæ. Hvílíkt lostæti! Taðreykt. Verður ekki jafnað!

Ein af mínum eftirlætisbókum er Veðurfræði Eyfellings eftir Þórð í Skógum. Sumt kannast ég við frá Sunnlendingum í ættinni. Gamlar íslenskar veðurlýsingar og orð eru oft skemmtileg og tilvísanir og skírskotanir eðlilegar og auðskiljanlegar. Fárviðri, blindbylur, svartaþoka, úrhelli. Eftir stofnun Veðurstofu Íslands reyndu íslenskir veðurfræðingar að nýta innlendan orðaforða en samræma hann með markvissum skilgreiningum alþjóðlegum stöðlum. Í seinni tíð hefur hallað undan fæti að mér finnst. Veit ekki hvort um er að kenna íslenskum eða útlendum aulagangi. Í íslensku hafa litir almennt ekki haft neinar tilvísanir í gott eða vont. Eina hefðbundna skírskotunin er um svart og hvítt og tilvísun í umferðarljós um grænt og rautt sem reyndar eru ekki gamalt fyrirbæri. Tenging óveðurs við ávexti og liti þeirra hlýtur því alltaf að hljóma óhemju kjánalega. Appelsínugul viðvörun setur þess vegna aulahroll að Íslendingum en vekur ekki óhug.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: