- Advertisement -

Féflettarnir hafa augastað á raforkunni

Útlendir auðmenn kaupa jarðir til að tryggja sér einkaaðgang að síðustu ósnortnu náttúru Evrópu fyrir sig og sína.

Ragnar Önundarson skrifar:

Síðast þegar við gáfum fullveldið eftir tók sex og hálfa öld að endurheimta það. Sundurlyndi olli miklu. Konungsgarður reyndist rúmur inngangs en þröngur brottfarar. Ekki gekk vel að fá kónginn til að standa við sín fyrirheit.

Nú stendur ESB-kóngur í Brussel með náðarfaðm sinn opinn og býður okkur að stjórna mikilvægum málaflokki, orkumálum, fyrir okkur. Fólk sem er orðið úrkula vonar um að við getum ráðið okkur sjálf beitir sér af hörku fyrir að við verðum skattland kóngs á ný. Honum verði nú falið forræði yfir náttúruauðlindum okkar, dropinn holi svo steininn, skref fyrir skref, þar til viðnámið brestur og við látum fallast í útbreiddan faðmin.

Með stóra skrefinu sem við tókum með aðildinni að EES samþykktum við að gera umgjörð ESB um viðskiptalífið líka að okkar umgjörð. Við vonuðum að tengsl við stóra markaði mundu gagnast okkur. Vissulega hafa útflutningsfyrirtækin og eigendur þeirra notið aðildarinnar. Við áttuðum okkur hins vegar ekki á þeirri gríðarlegu samþjöppun sem samkeppnisreglur sniðnar að stórum, virkum mörkuðum mundu valda. Samkeppniseftirlitið hefur andvaralaust samþykkt nær allar óskir um samruna og yfirtökur. Nú eru eigendur og stjórnendur þeirra orðnir sjálftökufólk sem féflettir almenning. Arði, kauprétti, ofurlaunum og bónusum velta félögin samtaka og jafnóðum út í verðlagið.

Nú hafa féflettarnir augastað á raforkunni. Hugsjónin um fjórfrelsið og einn sameiginlegan markað sem við undirgengumst skapar þeim gríðarlega arðbært tækifæri; ef við gleymum okkur á ný.

Útlendir auðmenn kaupa jarðir til að tryggja sér einkaaðgang að síðustu ósnortnu náttúru Evrópu fyrir sig og sína, erlendir fjárfestar með erlenda laxastofna skapa erlendu vinnuafli atvinnu og náttúran er afgangsstærðin. Nú er það hreinasta orkan sem á að fórna á altari ESB.

Það er merkilegt hvernig flestir þessara 63 einstaklinga sem hafa sóst eftir að gæta hagsmuna okkar hafa fjarlægst umbjóðendur sína. Skynja þeir ekki áhyggjur fólks ? Er þeim virkilega sama ?

Ef þeir slá ekki af verðum við að „taka hús á þeim“ við Austurvöll.

Bryndís Haraldsdóttir:
Áhyggjurnar eru oft á misskilningi byggðar.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur svarað Ragnari:

Þar sem ég er ein þessara 63 þá verð ég að segja jú ég skynja áhyggjur fólks sérstaklega og mér er ekki sama. Áhyggjurnar eru oft á misskilningi byggðar, því stöðugt framboð af rögnum upplýsingum um hvað fellst í 3 orkupakkanum virðist vera til staðar. O3 fjallar EKKI um nýtingu náttúruauðlinda, O3 felur EKKI í sér lagningu sæstrengs, það er ekki í O3 ákvörðun um eignarhald né nýtingarétt á orkuauðlindum. O3 felur ekki í sér valdaframsal til ESB.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: