- Advertisement -

Fjárhagslegt ofbeldi ríkisstjórnarinnar

Stýrivaxtahryðjuverkin munu halda áfram því talið er að næsta hækkun Seðlabankans verði 1% í viðbót.

Guðmundur Ingi Kristinsson.

Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, á Alþingi í dag:

Að fólk í sárafátækt sé að borga 50.000–60.000 kr. á mánuði í skatta er gróft fjárhagslegt ofbeldi og síðan koma hryðjuverkin þar ofan á með keðjuverkandi skerðingum.

Fátæka fólkið okkar er að leigja hreysi, óíbúðarhæfar íbúðir sem eru ekki boðlegar skepnum, hvað þá fólki með börn sem veikjast síðan vegna vosbúðar og myglu. Þá hækkar leigan um tugþúsundir króna og fólk á ekki fyrir henni, hvað þá fyrir mat og öðrum nauðsynjum fyrir sig og hvað þá fyrir börnin sín.

En ríkisstjórnin sefur og sefur á verðinum og leyfir verðbólgunni að æða áfram öllum til bölvunar og þegar hún rumskar smá annað slagið gerir hún ekkert nema lofsyngja stýrivaxtahækkanir seðlabankastjóra. Stýrivaxtahryðjuverkin munu halda áfram því talið er að næsta hækkun Seðlabankans verði 1% í viðbót. Ef það gengur eftir verða stýrivextir 7,5% og verðbólgan hækkar og það sem verra er, unga fólkið okkar, sem var platað af sömu aðilum sem töluðu um lágvaxtalandið Ísland, missir eigur sínar og tapar öllu sínu sparifé.

Hvað er til ráða?

Að senda unga fólkinu vaxtareikning upp á 150.000–200.000 kr. aukalega á mánuði og koma með því greiðslubyrðinni í 300.000–500.000 kr. er eitt það grófasta fjárhagslega ofbeldi sem sést hefur hér á Íslandi. Hvað er til ráða? Jú, hækkum persónuafsláttinn strax þannig að 400.000 kr. á mánuði, verði skatta- og skerðingarlausar og hættum um leið að láta forstjóra sem eru með meðallaun upp á 7,1 milljón á mánuði fá 60.000 kr. í persónuafslátt frá ríkinu. Þetta er það eina sem virkar, að hækka persónuafsláttinn, það skilar sér best til þeirra sem lifa ekki, hvað þá tóra á launum undir fátæktarmörkum í dag.

Hjálpum strax fátæka fólkinu sem á ekki fyrir húsaleigu, mat og hvað þá öðrum nauðsynjum og verður því að leita til hjálparsamtaka eftir mataraðstoð og nauðsynjum fyrir börnin sín sem lifa með þeim í sárafátækt í boði ríkisstjórnarinnar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: