- Advertisement -

Fjármálaráðherra: „Eigum alltaf að gera það sem við höfum lofað, ekki meira“

Þá þýðir ekkert að tala um það sem gerðist 2004. Við erum hér að ræða um það hvaða leiðir við viljum fara, hverjar eru bestar fyrir ríkissjóð og þar með fyrir fólkið í landinu.

Bjarni Benediktsson.

„Ég verð að lýsa ákveðinni furðu á því að fólk segi hérna í öðru orðinu að við séum að fjalla um kröfur sem séu varðar af stjórnarskrá og í öðrum lögum og hins vegar eru menn að gefa sér að hægt sé að leggja fram á þinginu frumvarp sem hrifsi þennan rétt af fólki. Ef það er svo að allar þessar kröfur eru svona vel varðar af stjórnarskrá og öðrum lögum þá verða þær ekki teknar af þeim sem halda á kröfunum og þá er væntanlega ekkert að óttast, nema þeir óttist að þeir tapi mögulega málinu, þá þegar frumvarpið kemur fram. En hér er komin af stað gríðarleg umræða án þess að frumvarp liggi fyrir þinginu,“ sagði Bjarni Benediktsson í umræðum um ÍL-sjóðinn og lífeyrissjóðina.

Næst brúkaði Bjarni fimmaurabrandara:

„Ég verð líka svona til gamans geta þess að mér hefur þótt áhugavert að hlusta á suma koma hér í umræðuna með algjörlega gagnslaust innlegg. Ég fékk sendan til mín svona lítinn myndastubb úr teiknimynd þar sem mikil ofurhetja kemur, ofurhetjan var Kapteinn eftiráhyggjunnar. Það brennur hús og það eru slökkviliðsmenn að störfum en þeir ráða ekki við eldinn. En hérna kemur ofurhetjan og lendir hjá þeim og þeir halda málinu sé reddað en það eina sem hann hefur til málanna að leggja er það sem hefði átt að gera til þess að eldurinn myndi ekki fara af stað,“ sagði Bjarni og hélt kannski að einhverjir þingmenn myndu fara að hlægja. Þeir gerðu það ekki. Ekki einu sinni þingmenn Bjarna.

…fyrr en eftir mörg, mörg ár…

Þá aftur að alvörunni.

„Nú er bara staðan sú að í ÍL-sjóður á ekki fyrir skuldbindingum. Þá þýðir ekkert að tala um það sem gerðist 2004. Við erum hér að ræða um það hvaða leiðir við viljum fara, hverjar eru bestar fyrir ríkissjóð og þar með fyrir fólkið í landinu. Ég er með þann málstað að það sé sanngjarnt að lög og skilmálar sem um málið gilda ráði niðurstöðunni og að við tökum skipulega á þessu máli og leiðum það til lykta með skipulegum hætti þannig að það sé best fyrir alla. Það liggur ekkert fyrir um mögulegt tjón þeirra sem myndu fá þannig fullnaðaruppgjör af hálfu ríkisins. Það verður ekki ráðið í það fyrr en eftir mörg, mörg ár vegna þess að fyrst þá er hægt að segja hvernig þeim hefur í millitíðinni gengið að ávaxta uppgjörið sjálft. Ég bið háttvirta þingmenn að huga að því, um leið og þeir vilja verja lög og rétt, að hér liggur ekki fyrir frumvarp. Það stendur ekki annað til en að ríkissjóður standi við skuldbindingar sínar og við eigum alltaf að gera það sem við höfum lofað, ekki meira.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: