- Advertisement -

Fjármálaráðherra sagði vinnumarkaðinn vera hið raunverulega vandamál

Lenya Rún Taha Karim.
„Það er mikilvægt að stjórnmálafólk virði sjálfsagðan og sjálfstæðan rétt verkafólks til að semja um og berjast fyrir eigin kjörum án þess að taka að sér hlutverk slettireku sem setur viðræður í uppnám eins og hæstvirtur fjármálaráðherra gerði fyrir skemmstu.“

„Kjaraviðræður eru nú í fullum gangi þó að skiptar skoðanir hafi verið viðraðar á framgangi þeirra og æskilegum niðurstöðum. Vonandi tekst vel til í samningaviðræðum svo að kjör verkafólks batni til muna á komandi árum. Eins og staðan er núna er nauðsynlegt að vinnandi fólk fái framlag sitt metið til fulls. Bankarnir skila gífurlegum hagnaði og útgerðarfélög sömuleiðis á meðan vaxtagreiðslur launafólks hækka sífellt. Vitaskuld er orsökin margþætt. Verðbólgan stýrist af fjöldamörgum breytum eins og stríðinu í Úkraínu, lóðaskorti, hækkandi húsnæðisverði og áfram mætti telja. Það breytir því þó ekki að þegar allt kemur til alls er það verkafólk sem keyrir hagkerfið áfram. Ef verkalýðurinn er í hakki líður ekki aðeins efnahagur þjóðarinnar fyrir það heldur sömuleiðis andi þjóðarinnar allrar,“ sagði Lenya Rún Taha Karim Pírati á Alþingi.

„Það er mikilvægt að stjórnmálafólk virði sjálfsagðan og sjálfstæðan rétt verkafólks til að semja um og berjast fyrir eigin kjörum án þess að taka að sér hlutverk slettireku sem setur viðræður í uppnám eins og hæstvirtur fjármálaráðherra gerði fyrir skemmstu. Fréttir bárust af því að fjármálaráðherra hefði sagt vinnumarkaðinn vera hið raunverulega vandamál og tók hann þar með opinbera afstöðu til þess hvernig kjaraviðræður ættu að þróast. Þetta er með öllu ólíðandi. Launafólk verðskuldar pláss til að leyfa rödd sinni að heyrast í kjaraviðræðum án þess að stjórnmálastéttin skipti sér af því hvernig viðræðum miðar með óumbeðnum athugasemdum,“ sagði hún.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: