- Advertisement -

Fjármálaráðherra talar gegn stefnu ríkisstjórnarinnar

„Það er algerlega skýrt af minni hálfu að ég mun ekki taka þátt í því að selja hlut í Landsbankanum.“

Katrín Jakobsdóttir.

Alþingi „Þessi ríkisstjórn virðist vera stjórnlaus og staðráðin í að læra ekkert af síðustu bankasölu. Bara núna fyrir helgi samþykkti ríkisstjórnin að selja restina af Íslandsbanka án þess að síðasta sala hafi verið gerð upp að fullu en á sama tíma berast tíðindi af 29 milljarða kr. tilboði Landsbanka Íslands, ríkisbankans, í TM, stórt fyrirtæki á fjármálamarkaði. Þá, eftir sex mánaða kaupferli sem Landsbankinn hefur tekið þátt í frá upphafi, rýkur hæstvirtur fjármálaráðherra á Facebook og skrifar færslu um að þessi viðskipti verði ekki að veruleika með hennar samþykki nema Landsbankinn verði samhliða settur í söluferli — eins og hún hafi ekkert vitað hvað hafi verið í gangi. Þá fyrst ætlar hún að heyra í Bankasýslunni sem öllu virðast ráða.“

Þetta sagði Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar á Alþingi fyrr í dag.

„Hver er stefnan, forseti? Hvað vissi hæstvirtur forsætisráðherra og hvað hefur verið rætt um þessi mál í ríkisstjórn? Tala hæstvirtir ráðherrar ekki saman hér um tugmilljarða kaup eða sölu á stórum fjármálafyrirtækjum sem snerta ríkissjóð? Eru undirstofnanir ráðherra bara alltaf á ákveðinni sjálfstýringu? 29 milljarðar kr. er tvöfaldur hagnaður Landsbankans á góðu ári, helmingur af kostnaði ríkisins við uppkaup á íbúum Grindvíkinga. Þetta er ekki bara einhver daglegur rekstur þar sem ríkisstjórnin getur skýlt sér á bak við armslengdarsjónarmið,“ sagði Kristrún og svo þetta:

„Svo vaknar auðvitað spurningin: Ætluðum við ekki vera búin að loka Bankasýslu ríkisins? Hvað er eiginlega í gangi hérna? Þetta stjórnleysi og samskiptaleysi hæstvirtra ráðherra er farið að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir ríkissjóð og það er ekki að sjá að það séu neinir fyrirvarar um að ráðherrar hafi yfir höfuð heimild til að rifta þessu tilboð upp á 29 milljarða sem þegar hefur verið gert. Ég hlýt að spyrja hæstvirtan forsætisráðherra: Stendur til að grípa inn í og stöðva þessi kaup Landsbankans á TM? Hvernig verður það þá gert? Eða verður farið í að einkavæða Landsbankann eins og hæstvirtur fjármálaráðherra er að kalla eftir?

Mér er sagt að það hafi ekki verið gert í þessu máli.
Katrín Jakopsdóttir.

„Ég þakka háttvirtum þingmanni Kristrúnu Frostadóttur fyrirspurnina. Fyrst vil ég nú segja, af því að hún nefndi hér Íslandsbanka í upphafi, að frumvarp er til samráðs og ekki óeðlilegt að það sé unnið með dágóðum fyrirvara þar sem lögð er til ákveðin aðferðafræði sem höfð er til hliðsjónar við mögulega frekari sölu á eignarhlutum. Þessi mál hafa auðvitað verið í stöðugu uppgjöri í raun og veru allt frá árinu 2022. Ég held að það sé mjög mikilvægt að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að Alþingi samþykki þessa aðferð, sem er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin lagði áherslu á þegar söluferlið í Íslandsbanka var gagnrýnt, þ.e. að Alþingi hafi ríkari aðkomu að þessum málum,“ sagði forsætisráðherra.

„Háttvirtur þingmaður spyr líka um sölu á Landsbanka. Það er algerlega skýrt af minni hálfu að ég mun ekki taka þátt í því að selja hlut í Landsbankanum. Það liggur skýrt fyrir í eigendastefnu ríkisins að ekki eigi að horfa til þess fyrr en að lokinni sölu á Íslandsbanka. Það var það sem þessi ríkisstjórn ákvað og það er fullkominn skilningur á því að mín hreyfing hefur haft þá skýru sýn að ekki skuli selja hlut í Landsbankanum. Því er þá skýrt svarað hér,“ sagði Katrín.

„Hvað varðar þá ákvörðun sem háttvirtur þingmaður gerir hér að umtalsefni þá er það svo að ráðuneytið hefur sett eigendastefnu, fjármála- og efnahagsráðuneytið, um að bera skuli meiri háttar ákvarðanir undir Bankasýslu ríkisins. Mér er sagt að það hafi ekki verið gert í þessu máli. Auðvitað má deila um það hvort þetta telst meiri háttar mál en auðvitað er hin almenna reglan sú að viðskiptalegar ákvarðanir bankans eru ekki á borði fjármálaráðherra hverju sinni, en teljist þetta vera meiri háttar ákvörðun skuli bera hana undir Bankasýsluna.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: