- Advertisement -

Fjórflokkurinn er veikur

Einkunnarorð ríkisstjórnar Katrínar gætu verið: Bíðum þetta af okkur.

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

Fyrir tólf árum, árið 2007, voru samanlagðar tekjur fjórflokksins, BDSV (Framsóknar, Sjálfstæðis, Samfylkingar, VG) rétt tæpar 1200 m.kr. á núvirði. Árið 2017 voru tekjurnar aðeins um 515 m.kr. Þeir höfðu skroppið saman um 57%. Fyrir því eru margar ástæður. Einstaklingar leggja meira en fjórðungi minna til þessara flokka, fyrirtækin um 80% minna og opinberir sjóðir um 60% minna; að hluta til vegna þess að framlög opinberra sjóða til stjórnmálaflokkanna höfðu skroppið saman af raunvirði en að hluta til vegna þess að árið 2007 hafði fjórflokkurinn 59 þingmenn en hefur í dag aðeins 42; aðrir flokkar hafa komist í kökuboxið.

Hvort sem við sættum okkur við það eða ekki, þá er fjórflokkurinn hryggjarsúlan í stjórnmálaelítunni. Það sést ágætlega í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Þar sameinast þrír af fjórum flokkum undir því markmiði að draga úr upplausn og óróleika innan stjórnmálanna; ríkisstjórn Katrínar er varnarviðbrögð 4flokksins, lærdómur forystu hans af samstarfi við nýrri flokka, flokka sem endurspegla gerjunina út í samfélaginu. Einkunnarorð ríkisstjórnar Katrínar gætu verið: Bíðum þetta af okkur.

Til að bæta sér tekjutapið hefur Sjálfstæðisflokkurinn steypt sér í skuldir, skuldar núna hátt í hálfan milljarð króna, skuldaði aðeins tæpar 60 m.kr. árið 2008.
Ljósmynd: Vísir.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lifað um efni fram

En þessi hryggjarsúla er löskuð og veik. Það er mikið álag fyrir hvaða stofnun sem er að missa meira en helming af tekjum sínum. 4flokkurinn hefur að því leyti ekki jafnað sig á Hruninu. Framsókn er nú aðeins þriðjungur af því sem áður var, í krónum talið; VG er þriðjungi minni, Samfylkingin aðeins 30% af því sem áður var og Sjálfstæðisflokkurinn helmingi minni en 2007.

Til að bæta sér tekjutapið hefur Sjálfstæðisflokkurinn steypt sér í skuldir, skuldar núna hátt í hálfan milljarð króna, skuldaði aðeins tæpar 60 m.kr. árið 2008. Flokkurinn hefur lifað um efni fram, tórir á lánuðum tíma. VG og Samfylkingin tóku á sínum skuldum þegar fylgið hrundi af þessum flokkum eftir sameiginlega ríkisstjórn þeirra og Framsókn hefur ekki bætt við sig skuldum, var mjög skuldug fyrir og skuldar jafn mikið enn; um 250 m.kr.

Þarf að horfast í augu við raunveruleikann

„Þau sem voru ósátt með samsteypustjórn VG með auðvaldinu gengu úr flokknum; hann hefur aðeins eitt herbergi; þau sem vilja ekki vera í partíi forystunnar verða að flytja að heima.“

Það má því segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi keypt sig frá meira fylgishruni en orðið er með því að eyða um 400 m.kr. sem ekki voru til. En það mun ekki ganga lengi enn. Fyrr en síðar verður flokkurinn að horfast í augu við raunveruleikann og draga saman seglin eins og hinir flokkarnir. Til að forðast skipsbrot, magalendingu, hrun; hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft forystu um að auka framlög ríkis og sveitarfélaga til flokkanna; til að bæta þeim minni áhuga félagsmanna á greiða til flokkanna og minna fylgi meðal kjósenda, sem hefur leitt til lægri styrkja úr opinberum sjóðum. En þótt flokkarnir hafi stóraukið framlögin til sín á síðustu árum, er ólíklegt að þeim takist að vega sig upp í fyrra umfang. Almenningur myndi ryðjast niður á Austurvöll og stöðva þjófnaðinn, henda þingmönnum heim, sem ekki gættu ríkissjóðs fyrir framkvæmdastjórum flokkanna.

Styrmir er eina lífið innan Sjálfstæðisflokksins

En staðan er alvarleg fyrir 4flokkinn. Hann er í engu standi til að halda uppi sambærilegu starfi og var fyrir Hrun; virkni almennra félaga hefur nánast horfið, flokkarnir eru ekki lengur hugmyndaleg deigla, innan þeirra er ekki tekist á um menn og málefni, þeir peningar sem flokkarnir hafa yfir að ráða fara fyrst og fremst til að verja völd forystunnar. Eftir að Sigmundur Davíð rauk út úr Framsókn er ekki að merkja neina andstöðu innan neins af þessum flokkum, enga spennu, aðhald eða endurnýjun. Meðal Kiwanisklúbbur er sterkari hugmyndadeigla en 4flokkurinn. Styrmir Gunnarsson er eina lífið innan Sjálfstæðisflokksins en hinir flokkarnir geta ekki skreytt sig með slíkum gagnrýnanda. Þau sem voru ósátt með samsteypustjórn VG með auðvaldinu gengu úr flokknum; hann hefur aðeins eitt herbergi; þau sem vilja ekki vera í partíi forystunnar verða að flytja að heima.

Sem fyrirtæki á leið í þrot

Hnignun 4flokksins stendur því enn og afleiðing hennar hefur ekki að fullu komið fram. Þessir flokkar eru svo veikir að þeir ráða ekki við verkefni dagsins, sem eru önnur eftir Hrun en á árum áður. Flokkarnir eru hins vegar svo veikir að þeir geta ekki endurnýjast, þeir eru sem fyrirtæki á leið í þrot, athyglin er öll á að fresta því sem lengst, skera niður kostnað, höggva af sér starfsemi, drepa niður allar hugmyndir um sókn og endurreisn.

Og þetta ástand 4flokksins er helsta ástæða þess að umræðan inn á Alþingi og tillögur ríkisstjórnarinnar eru á engan hátt í takt við þann raunveruleika sem almenningur býr við. Ástæðan er að flokkarnir eru í reynd ónýtar stofnanir, varla svipur frá sjón frá því sem áður var.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: