- Advertisement -

Flokkarnir höfðuðu ekki til fólks

Meginástæður þess að svo stór hluti kjósenda kaus ekki í síðustu sveitarstjórnarkosningum voru þær að flokkar höfðuðu ekki til kjósenda, því fannst atkvæði sitt ekki skipta máli og það nennti ekki á kjörstað. Flestum fannst að netkosningar hefðu verulega aukið líkurnar á því að þeir hefðu kosið.

Á síðu Háskólans á Akureyri er hægt að sjá  frumniðurstöður rannsóknar Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands og Félagsvísindastofnunar á því hverjar væru ástæður dræmrar kjörsóknar í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru 31. maí síðastliðinn.  Á kynningarfundinum sem fór fram í Innanríkisráðuneytinu kom meðal annars fram í máli Grétars Þórs Eyþórssonar prófessors við HA sem fór fyrir rannsóknahópnum, að 41% þeirra svarenda í könnuninni sem ekki kusu í vor fannst of margir flokkar vera í framboði , 32% fannst ekki skipta máli hver yrði kosinn í sveitarstjórn  og 30% nennti hreinlega ekki á kjörstað.
Í heildina sögðu 41% þeirra sem ekki kusu að enginn flokkur í framboði í sínu sveitarfélagi hafa höfðað til sín. Dreifing svara við þessari spurningu var talsverð,ekki síst eftir aldri og búsetu svarenda og stærð sveitarfélaga. Átti þetta langsíst við yngsu kjósendurnar, eða 33%. Þetta var hinsvegar ríkari ástæða þeirra á höfuðborgarsvæðinu sem ekki kusu (44%) miðað við landsbyggðina (31%). Þá átti þetta mun síður við fólk í minni sveitarfélögum sem ekki kaus (23%). Þetta virðist því vera atriði sem tengist aldri, búsetu og stærð sveitarfélaga mest.

Alls sögðu 32% þeirra sem ekki kusu að möguleikinn: Mér fannst ekki skipta máli hver yrði kosinn í sveitarstjórn ætti mjög eða frekar vel við sig. Dreifing á svörum við þessari spurningu er ekki mikil en helst ber að nefna mun milli karla og kvenna þar sem 36% karla töldu þetta eiga vel við sig, en 26% kvenna. Þá má nefna að þeir sem styðja ekki stjórnmálaflokkana sem sitja á Alþingi gefa þetta frekar upp sem ástæðu en aðrir.

Í heildina rúmur þriðjungur, eða 34% þeirra sem ekki kusu, að þeir teldu að atkvæði mitt myndi ekki hafa áhrif á úrslit kosninganna. Einungis 20% svarenda í minnstu sveitarfélögunum tóku undir þetta.

Tæpur þriðjungur þeirra sem ekki kusu völdu að kjósa ekki til þess að lýsa yfir óánægju sinni með kosningarnar og/eða flokkana í framboði. Átti þetta einkum við eldri svarendur.

Þriðjungur þeirra sem ekki kusu sagðist ekki hafa nennt ekki á kjörstað. Þetta er óvenju há tala og hún er ennþá hærri meðal karla , 34%, yngstu svarendanna, 35%,  og í stærstu sveitarfélögunum, 32%.

Rafræn kosning hefði aukið líkurnar
Um 65% þeirra sem ekki kusu töldu að hefði verið hægt að kjósa rafrænt í gegnum netið hefði það aukið líkurnar á kosningaþátttöku þeirra. Hér má hinsvegar finna verulegan mun milli nokkurra hópa. Karlar eru mun líklegri til að telja netkosningu hafa aukið líkur á þátttöku sinni (72%) en konur. Jafnframt er talsverður munur á milli  aldurshópa. Þrír af hverjum fjórum (75%) sem á aldursbilunum 18-29 ára og 30-44 ára segja netkosningu hefði aukið líkur á sinni þátttöku.

Rúmur helmingur svarenda, eða 52%, taldi að það hefði aukið líkur á kosningaþátttöku hans hefði verið hægt að kjósa einstaka frambjóðendur þvert á flokka og lista. Karlar (55%) voru ívið líklegri en konur (48%) til að vera þeirrar skoðunar. Um 64% svarenda á aldrinum 30-44 ára töldu persónukjör auka líkur á kosningaþátttöku sinni, en það er talsvert hærra hlutfall en meðal svarenda í yngsta aldurshópinum (18-29 ára; 45%) og svarenda í elsta aldurshópinum (60 ára og eldri; 51%). Þá virðist áhuginn á persónukjörinu að einhverju leyti vera tekjutengdur þar sem svarendur í hæstu tekjuhópunum voru líklegri til að telja að persónukjör hefði aukið líkur á kosningaþátttöku þeirra en svarendur í lægri tekjuhópum, eða 54% og 67% á móti 47-51% í lægri tekjuhópunum. Loks má benda á að 61% svarenda í minni sveitarfélögunum segja að persónukjörhefði aukið líkur á þátttöku þeirra.

Ef bornir eru saman svarendur sem kusu annars vegar og kusu ekki hins vegar sést greinilegur munur eftir, þ.e. kosningaþátttaka svarenda á aldur sbilitnu 18 til 29 ára var talsvert lægra (63%) en kosningaþátttaka svarenda í eldri aldurshópunum (76%-87%). Kosningaþátttaka var mest meðal svarenda 60 ára og eldri, eða um 87%. Kosningaþátttaka var minni á meðal svarenda sem eru einhleypir (63%) samanborið við þá sem eru í sambúð (71%), í hjónabandi/staðfestri samvist (87%) og fráskildra / ekkla/ekkna (81%).

Kosningaþátttaka var lægri meðal þeirra sem eru með grunnskólamenntun (72%) eða hafa lokið bóklegu framhaldsnámi (72%) samanborið við þá sem eru með iðnmenntun (81%) eða háskólamenntun (86%). Námsmenn og launafólk er síður líklegt til þess að hafa kosið heldur en þeir sem eru sjálfstætt starfandi eða atvinnurekendur eða þeir sem falla undir „annað“ (t.d.heimavinnandi), þar sem 69% námsmanna, 74% launamanna, 80% sjálfstætt starfandi/atvinnurekenda og 84% sem falla undir „annað“ segjast hafa kosið. Stjórnendur og sérfræðingar eru mun líklegri til þess að hafa kosið samanborið við aðrar atvinnustéttir eða 86% þeirra samanborið við 68-73%. Bændur, fiskimenn, véla- og verkafólk er sú atvinnustétt sem tók minnstan þátt í kosningum með 68% kosningaþátttöku.Tekjuhærri einstaklingar, hvort sem litið er á einstaklingstekjur eða heimilistekjur voru almennt líklegri til að hafa kosið heldur en þeir sem eru tækjulægri.

Sjá frumniðurstöður í heild sinni.

Sjá frétt á vef Háskólans á Akureyri.

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: