- Advertisement -

„Flokkur fólksins hefur yfirgefið uppruna sinn“

En hvar getum við mælt það tjón?

„Málflutningur Flokks fólksins og hamagangur er að verða með tímanum að holu æsingstali án innihalds þar sem meira er hugsað um að spila á tilfinningar fólks. Mest er ég sorgmæddur yfir hvernig stjórnmálaflokkurinn og forysta hans vegur að starfsheiðri dýralækna og bænda og vegur að heiðri fólks sem hefur lagt lífsstarf sitt í að halda búfé og hefur metnað til að sinna því og stunda dýralækningar. Að þessu fólki er vegið mjög ómaklega oft í þessari umræðu,“ sagði Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður Bændasamtakanna, um vilja Flokks fólksins til að banna blóðmerahald.

„Á fundum atvinnuveganefndar, sem haldnir hafa verið um tiltekið þingmál sem hér er til umræðu með ákveðnum hætti, hafa ekki komið fram neinar slíkar staðfestingar annað en að almennt líði þessu búfé vel og vel sé um það hugsað. Það eru vissulega frávik og á frávikum eigum við að taka. Það er ekkert nýtt að á Íslandi séu frávik frá gildandi lögum,“ sagði Haraldur.

Næst sagði hann: „Fullyrt er í spurningum málshefjanda í upphafi umræðu að hér hafi orðið slíkur álitshnekkir og tjón að til vansa horfi. En hvar getum við mælt það tjón? Það sést ekki á útflutningi hrossa síðastliðinn janúarmánuð þar sem fluttir voru út 340 reiðhestar, á sama tíma í fyrra 246 hestar og í janúar árið þar á undan 169. Bókanir í ferðaþjónustu líta ekki síður vel út og raunar aldrei betur, segja talsmenn ferðaþjónustu. Alltaf má gera betur og umræðan hefur ekki síst gagnast til þess. Því ber að fagna og vafalaust verða breytingar og þær verða áfram.“

Og hann endaði ræðu sína svona:

„Ég verð að segja, virðulegi forseti: Getur verið að undir merkjum baráttu gegn fátækt í landinu höfum við eignast stjórnmálaflokk sem hefur sett skotmark sitt á einstakar atvinnugreinar til að skerða þær og skaða og draga fram ljót dæmi um frávik sem við öll fordæmum? Flokkur fólksins hefur yfirgefið uppruna sinn en við hin sem ekki viljum líta undan viljum laga en ekki eyðileggja það sem er brotið.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: