- Advertisement -

Fólk grotnar niður á biðlistum

„Samkvæmt heimasíðu landlæknis bíða 80% þeirra sem þurfa liðskiptaaðgerðir í tvö ár eða lengur eftir að komast í aðgerð. Viðkomandi er kannski nr. 399 á biðlista eftir aðgerð, veikur heima og bryðjandi verkjatöflur og önnur lyf þangað til röðin kemur að honum. En fyrst þarf hann að komast að hjá sérfræðingum og vera á biðlista þar. Síðan þarf hann að komast á biðlista til að komast í aðgerð,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson.

„Það er grafalvarlegt mál að láta fólk grotna niður á biðlista og það er skylda okkar að aðstoða veikt fólk sem lifir á verkjalyfjum, bólgueyðandi lyfjum og öðrum lyfjum og þarf jafnvel svefnlyf til að geta sofið fyrir verkjum. Biðlistar skaða fólk andlega og líkamlega svo það bíður varanlegan skaða af. Veikt fólk, eldri borgarar og öryrkjar hafa ekki efni á læknishjálp og lyfjum vegna kostnaðar. Fullvinnandi fólk á biðlista eftir liðskiptaaðgerðum hefur ekki efni á að kaupa sig fram fyrir listann og fá aðgerð í Klíníkinni í Ármúla. Eigum við að ráðleggja þessu fólki að fara erlendis? Hvenær á þessari ótrúlega heimsku og fáránlegu aðferð gagnvart veiku fólki að linna, að segja að það geti farið erlendis í aðgerð sem kostar þrisvar sinnum meira en innlenda aðgerðin yfir götuna? Það hlýtur að vera kominn tími á að eitthvað sé gert vegna þess að bið eftir aðgerð í meira en ár er svo mannskemmandi að það veit enginn hvernig er að vera í þeirri aðstöðu nema hafa reynt það. Ég hef reynt það. Það ömurlegasta sem maður gerir einstaklingi er að láta hann grotna niður og dæla í hann verkjalyfjum svo mánuðum eða árum skiptir. Það er verið að ganga frá og veikja þann einstakling og koma honum hreinlega bara í örorku,“ sagði Guðmundur Ingi og sagði svo:

„Ég spyr hæstvirtan ráðherra: Hvað er hann að gera í þessu máli og er hann að semja við sjúkraþjálfara og sérgreinalækna?“

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að ná tökum á þessari stöðu og það hefur verið bætt í, svo það komi fram. Í heimsfaraldrinum voru aðgerðir látnar bíða þannig að það er mikið verkefni fram undan. Ég bind miklar vonir við vinnu aðgerðahóps sem ég skipaði á dögunum, það eru vikur síðan. Í þeim hópi eru allir sem geta og kunna mikið fyrir sér á þessu sviði, þ.e. frá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Klíníkinni. Þessum hóp var falið að ná heildrænt utan um þá áskorun sem felst í að stytta biðlista eftir liðskiptaaðgerðum. Þessi hópur á líka að skila tillögu að framtíðarfyrirkomulagi vegna þess að við eigum ekki að þurfa að lenda í þeirri stöðu að fólk gefist upp og leiti til útlanda í gegnum svokallaða siglinganefnd Sjúkratrygginga. En það þarf um leið að tryggja gæði þjónustunnar og það þarf að tryggja jafnræði við þetta borð. Þess vegna er miðlægur biðlisti, sem lengi hefur verið unnið að, svo gott sem klár þannig að bæði þeir sem á þessum aðgerðum þurfa að halda og þeir sem framkvæma þær — hópurinn mun innleiða gæðafyrirkomulag samhliða því að koma með þetta fyrirkomulag og svo þurfum við að fara í aðgerðirnar sjálfar, þannig að þessar samningaviðræður standa yfir samhliða,“ sagði Willum Þór Þórsson ráðherra.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: