- Advertisement -

„Fordæmalaus aðgerð og stórslys“

„Eiginfjárstaða allra þessara smælingja, sem stjórnarmeirihlutinn hefur komið til hjálpar, er ágæt.“

Sigmar Guðmundsson.

Alþingi Eftir að Alþingi samþykkti hinar umdeildu breytingar á búvörulögum sem þýða að kjötafurðastöðvar verða undanþegnar samkeppnislögum sagði Sigmar Guðmundsson í Viðreisn:

„Forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefur kallað þetta fordæmalausa aðgerð og stórslys og þetta hefur líka verið harðlega gagnrýnt af Neytendasamtökunum. ASÍ hefur bent á að þessi breyting geti unnið gegn markmiðum nýgerðra kjarasamninga. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, hefur bent á að breytingin nái ekki bara til lítilla sláturhúsa sem eru nærri gjaldþroti eins og gefið var í skyn, heldur nái hún líka til stöndugri fyrirtækja og hann nefnir þau í pistli, með leyfi forseta:

„Matfugl og Síld og fiskur/Ali. Langisjór, móðurfélag þessara fyrirtækja og fleiri, t.d. Ölmu leigufélags, hagnaðist um 3,9 milljarða 2022 og 13,7 milljarða árið áður. Kaupfélag Skagfirðinga. Var rekið með 1,7 milljarða króna hagnaði árið 2022 og 5,4 milljarða hagnaði árið áður. […] Sláturfélag Suðurlands. Hagnaður þess hefur farið vaxandi undanfarin ár; var 792 milljónir á síðasta ári skv. nýlegu uppgjöri, 549 milljónir árið 2022 og 233 milljónir árið áður. Í síðustu þremur ársreikningum SS er vitnað til betri markaðsaðstæðna og árangursríkra hagræðingaraðgerða […]“ — sem er aðeins á skjön við þær frásagnir sem heyrðust hér í gær — „Stjörnugrís. Það félag hagnaðist um 39 milljónir árið 2022 og 308 milljónir árið 2021.“

Að tryggja einokun milliliða í landbúnaði…

Eiginfjárstaða allra þessara smælingja, sem stjórnarmeirihlutinn hefur komið til hjálpar, er ágæt.“

Síðan sagði Sigmar:

„Þeir sem eru að stilla því upp að ASÍ, Neytendasamtökin og Samkeppniseftirlitið séu einhverjir óvinir bænda hafa vondan málstað að verja. Það er ekki gagnlegt fyrir umræðuna að það megi ekki gagnrýna óskaplega miðstýrt landbúnaðarkerfi sem skilar bændunum sjálfum knöppum kjörum án þess að það sé sett í annarlegt samhengi. Formaður Framsóknarflokksins fagnaði þessu mjög. Sami flokkur fer líka með samkeppnis- og neytendamál en Samkeppniseftirlitið og Neytendasamtökin eru meðal hörðustu gagnrýnenda breytinganna. Sjálfstæðisflokknum vil ég svo óska til hamingju. Að ríkisvæða tryggingafélag og tryggja einokun milliliða í landbúnaði á örfáum dögum er ágætisverk á ekki lengri tíma.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: