- Advertisement -

Framganga bankanna er hrein móðgun

„Alþingi og ríkisstjórn eru svona slökkvilið í þeim vandræðum sem Grindvíkingar standa frammi fyrir núna.“

Ásmundur Friðriksson.

„Alþingi og ríkisstjórn eru svona slökkvilið í þeim vandræðum sem Grindvíkingar standa frammi fyrir núna. Það er mjög mikilvægt að við mætum á staðinn og bregðumst hratt og örugglega við. Heimili eru ónýt og þau sem standa heil eru ónotuð vegna þeirra aðstæðna sem þarna eru og fólkið þarf að finna sér annan viðverustað og finna öryggi á nýjum stað. Í því ljósi, virðulegur forseti, finnst mér það tilboð sem bankarnir gerðu Grindvíkingum um að stöðva afborganir en halda áfram að rukka vexti og verðbætur á fasteignalánum nánast hjákátlega broslegt í þeirri stöðu sem núna er uppi. Bankarnir þurfa ekki undir þessum kringumstæðum að hagnast á Grindvíkingum. Vaxtaokrið í þessu landi er nóg og verðbæturnar sem ofan á það bætast. Og svo ef fólkið þarf að leigja sér húsnæði á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar til viðbótar því sem fyrir er þá nær enginn endum saman undir þeim kringumstæðum. Fólkið getur ekki borgað tvöfalt af húsnæði,“ sagði Ásmundur Friðriksson á Alþingi í viku sem leið.

„Ég byrjaði þessa umræðu á mánudaginn var og varaði við því strax, það yrði að bregðast við svo að íbúar í Grindavík gætu losnað undan afborgunum af fasteignalánum, vöxtum og verðtryggingu og þeim yrðu tryggð laun og fyrirtækjunum yrði tryggt að þau gætu haldið áfram að greiða laun til starfsmanna sinna og þeim yrði gert kleift að hefja rekstur eins fljótt og hægt er og við gæfum íbúunum svigrúm til að koma sér fyrir. Við verðum að gera það á þann hátt að þeim líði eins bærilega með það og hægt er. Í því ljósi er það tilboð sem nú liggur fyrir frá bönkunum og lánastofnunum algerlega óviðunandi. Það er nánast móðgun við fólk að bjóða þetta.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: