- Advertisement -

Framsókn er ein sorglegasta saga íslenskra stjórnmála

Nú mætir formaður Framsóknar hreint alveg gáttaður yfir ástandinu sem flokkurinn sjálfur skapaði. Til hvers eru svona fréttir fluttar?

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Framsókn var í ríkisstjórn þegar jarða- og ábúðarlögum var breytt svo auðmenn gátu tekið til við að safna jörðum. Reyndar var það ráðherra Framsóknar sem flutti málið. Framsókn var í ríkisstjórn þegar reglugerð sem bannaði uppkaup útlendra auðmanna var felld niður. Nú mætir formaður Framsóknar hreint alveg gáttaður yfir ástandinu sem flokkurinn sjálfur skapaði. Til hvers eru svona fréttir fluttar? Er ætlunin að telja okkur trú um að stjórnarmálafólk sem býr til tjón séu líklegastir er til að stöðva það og bæta fyrir?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Framsókn er ein sorglegasta saga íslenskra stjórnmála. Flokkurinn varð til upp úr Samvinnuhreyfingunni, öflugustu almannasamtökum sem orðið hafa til hérlendis (það má deila um hvort verkalýðshreyfingin hafi orðið sterkari). Flokkurinn á því rætur í upprisu samfélaga í sveitum og sjávarþorpum, þar sem íbúarnir tóku höndum saman og byggðu upp atvinnu- og félagslíf við upphaf nútíma á Íslandi, færðu í raun nútímann til Íslands; kaupfélög, samvinnuútgerðir, sláturhús, mjólkursamlög, lestrarfélög, ungmennafélög o.s.frv.

Þegar Samvinnuhreyfingin varð klíkuvæðingu að bráð stóð flokkurinn með kommissörum hins stofnanavædda Sambands íslenskra samvinnufélaga en ekki almennum félögum eða almenningi. Þegar kommissararnir stálu síðan eignum samvinnuhreyfingarinnar á nýfrjálshyggjuárunum stóð Framsókn með þjófunum, ekki hreyfingunni. Það var á þeim árum sem flokkurinn breytti jarða- og ábúðarlögum svo auðmenn gætu ferðast um sveitir og keypt sér jaðrir að vild, m.a. þeir sem efnast höfðu gríðarlega af því að sölsa undir sig eignum samvinnuhreyfingarinnar. Þessi stefna flokksins leiddi til algjörs hruns í fylgi, flokkurinn hafði svikið sitt bakland og sína sögu á enn alvarlegri máta en þeir flokkar sem spruttu upp úr verkalýðshreyfingunni höfðu svikið sitt fólk og sína sögu.

Til að endurlífga Framsókn var kallað á Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Til að endurlífga Framsókn var kallað á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem síðar kom í ljós að hafði falið auð sinn og eiginkonu sinnar í aflöndum til að komast hjá skattgreiðslum. Núverandi formaður bauð sig fram gegn Sigmundi en í reynd ekki gegn hrörnun flokksins á undanförnum áratugum. Uppgjör gagnvart þeirri vegleið hefur ekki enn farið fram í Framsókn. Flokkurinn þáði aðalstöðvar sínar að gjöf frá Ólafi Ólafssyni fyrir fáum árum, einum þeirra sem náð höfðu undir sig eignum samvinnuhreyfingarinnar, einn af þeim auðmönnum sem vildi safna að sér jörðum og einn þeirra auðmanna sem stýrði Íslandi fram af hengifluginu 2008.


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: