- Advertisement -

Fréttaljós úr fortíð

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Fyrsta einkavæðingin á fjármálamarkaði var þegar fjórir sjóðir ríkisins (Fiskveiðasjóður Íslands, Iðnlánasjóður, Útflutningslánasjóður og Iðnþróunarsjóður) voru sameinaðir 1998 undir nafninu Fjárfestingarbanki atvinnulífsins, skammstafað FBA, og bankinn síðan seldur í tveimur áföngum. Bankastjóri þessa nýja banka var Bjarni Ármannsson, seinna meir stórleikari í bólunni sem leiddi til Hrunsins 2008. Fyrri áfangi einkavæðingarinnar var sala margra smárra hluta sem ætlað var að tryggja dreift eignarhald. Kaupþing, undir forystu Sigurðar Einarssonar, annars stórleikara í bankabólunni, stóð hins vegar fyrir skipulagðri söfnun kennitala og keypti í útboðinu fyrir hönd fólks sem ætlaði ekki að eiga hlutabréf í bankanum, heldur lánaði aðeins kennitölu sína gegn smávægilegri þóknun. Þegar þessum hlutum var safnað saman reyndust þeir nema um 22% af bankanum og var hluturinn seldur í heilu lagi til hóps viðskiptamanna sem hver um sig var áberandi á sínu sviði, en sem höfðu ekki áður ruglað saman reitum. Þeir kynntu sig á fundi á loftinu við Lækjarbrekku og eru á myndinni talið frá vinstri: Jón Ólafsson kenndur við Skífuna og á þeim tíma aðaleigandi Íslenska útvarpsfélagsins sem síðar varð Norðurljós, Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og einn þriggja eigenda Samherja, Gestur Jónsson lögmaður var ekki hluti hópsins, Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs, og Eyjólfur Sveinsson útgefandi DV. Þessi innkoma tiltölulega ungra viðskiptamanna inn í bankarekstur var mikil bomba og alls ekki það sem Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra og helsti arkitekt víðtækrar sölu almenningseigna, hafði séð fyrir sér. Fram að þessu hafði hann selt Bæjarútgerð Reykjavíkur vinum sínum og tekist að færa aðrar almannaeigur í hendur sinna manna. Helsta gagnrýni Davíðs opinberlega var að með þessu hefði Kauðþing og Orca-hópurinn eyðilagt dreifða eignaraðild að bönkunum en þó var talið meiru skipta í afstöðu hans að þetta voru ekki mennirnir sem hann hafði séð fyrir sér að tækju yfir hluti ríkisins á fjármálamarkaði. En Davíð fékk ekki við þetta ráðið. Þegar afgangurinn af bankanum var seldur buðu þeir félagar í Orca-hópnum í hluti hver í sínu lagi til að komast undir hámark á hlut hvers aðila og þegar upp var staðið hafði Orca-hópurinn eignast um helming af hlutabréfum í bankanum og réð í raun stefnu hans. FBA var síðan sameinaður inn í Íslandsbanka og veitti það hópnum sterka stöðu innan þess banka og í bankakerfinu í heild. Það átti ekki eftir að enda vel.

En Davíð var ósáttur. Og hann var valdamikill í íslensku samfélagi um síðustu aldamót. Allir áttu þessir fjórir eftir að finna fyrir því að það getur verið erfitt að hafa slíkan mann á móti sér.

En Davíð var ósáttur. Og hann var valdamikill í íslensku samfélagi um síðustu aldamót.

Eyjólfur Sveinsson var fyrstur til að finna til tevatnsins, enda stóð hann veikast fjárhagslega. Hann og faðir hans, Sveinn R. Eyjólfsson, höfðu byggt stóra spilaborg á tiltölulega veikum rekstri DV og ekki síst fjárfest í tölvu- og netfyrirtækjum, sem voru hátt metin í svokallaðri netbólu en urðu verðlítil, jafnvel einskis virði, þegar sú bóla sprakk. Þeir feðgar misstu flest af eignum sínum og fyrirtækjum. Ég vann þá við stofnun Fréttablaðsins og rekstur fyrstu mánuðina, en blaðið var stofnað af þeim feðgum. Og þegar þeir féllu í ónáð var eins og ákvörðun um að láta þá falla bærist á örskotsstund um allan bæ. Mér fannst sem ég heyrði hurðir skellast, skyndilega voru allar dyr lokaðar. Það var sama hvað við báðum um, svarið var nei. Útibússtjóri í Búnaðarbankanum bað mig að fara eitthvað annað þegar ég ætlaði að stofna reikning þar. Ég er ekki að biðja um lán, bara reikning til að leggja inn á og taka út af, útskýrði ég. Ég veit, en geturðu ekki farið eitthvað annað, svaraði útibússtjórinn. Þegar ég spurði sterkefnaðan mann hvort hann vildi leggja fé í Fréttablaðið spurði hann á móti: Heldurðu að ég vilji kaupa mér ofsóknir? Líf mitt er nógu flókið fyrir. Fréttablað Eyjólfs fór á hausinn og það fór svo að ég keypti reksturinn og seldi Jóni Ásgeiri og fleirum hluti í hinu endurreista blaði. Þetta var í júlí 2002. Í ágúst fór saksóknari inn á skrifstofur Baugs og lagði hald á bókhaldið. Það var upphaf þess sem kallað var Baugsmálið.

Á þessum tíma var Jón Ólafsson kominn í vanda með rekstur Norðurljósa. Það félag var skuldsett upp í rjáfur og þótt Stöð 2, Bylgjan og Skífan gengju ágætlega var langt í frá að reksturinn stæði undir svimandi skuldum. Félagið var því eiginlega lifandi dautt og það sveimuðu í kringum það hrægammar. Innan Búnaðarbankans var unnið að því að setja saman æskilegan eigendahóp þessa fjölmiðlafyrirtækis, það er eigendur sem Davíð Oddsson og hópurinn í kringum hann, mennirnir sem telja sig réttborna til valda í íslensku samfélagi, gætu sætt sig við. Þessi hópur var blanda af þeim innvígðu sjálfstæðisflokksmönnum sem keypt höfðu DV af Sveini og Eyjólfi (þar sem m.a. voru núverandi hluthafar Moggans) og síðan Björgólfur Guðmundsson og menn honum tengdum.

Næsta áratuginn vann Davíð að því að laga fjölmiðlaumhverfið svo það þjónaði honum.


Hér þarf ég að skjóta inn forsögu. Þegar Davíð var kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins 1991 og varð nokkrum vikum seinna forsætisráðherra upplifði hann sem hann hefði alla fjölmiðlana á móti sér; Ríkisútvarpið, Stöð 2, Bylgjuna, flokksblöð annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins og meira að segja Moggann, en ritstjórarnir þar höfðu stutt Þorstein Pálsson í formannsslagnum og voru auk þess farnir að þróa sína eigin stefnu í mörgum málum, sem stundum gekk þvert á stefnu Sjálfstæðisflokksins. Næsta áratuginn vann Davíð að því að laga fjölmiðlaumhverfið svo það þjónaði honum. Þarna um aldamótin var staðan sú að hann hafði sveigt Moggann undir sig, Sjálfstæðisflokksfólk var orðið allsráðandi á Ríkisútvarpinu, flokksblöðin voru dauð, félagar Davíðs höfðu keypt DV og það var aðeins tímaspursmál hvenær hans menn kæmust yfir Stöð 2 og Bylgjuna. Davíð var því ekki ánægður þegar Fréttablaðið var endurreist.

Og ekki gladdi það Davíð meira þegar Jón Ásgeir og Búnaðarbankinn keyptu Norðurljós og allar eignir Jóns Ólafssonar, björguðu honum frá magalendingu og náðu að kippa til sín Stöð 2/Bylgjunni beint fyrir framan nefið á þeim sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði ákveðið að ættu að kaupa þessa miðla.

Ég ætla ekki að rekja þessa sögu lengra, því nú er ég kominn að þeirri sögu sem vildi segja ykkur. Um þetta leyti hitti ég innmúraðan og innvígðan sjálfstæðisflokksmann sem sagði að Davíð Oddsson væri langrækinn maður og hann hefði enn ekki gleymt Orca-hópnum og hvernig honum hefði tekist að ná undir sig bankanum sem Davíð hafði ætlað öðrum. Þessi heift Davíðs skýrir hvað hefur komið fyrir þessa menn, sagði þessi maður. Og bætti við: Ímyndaðu þér síldarplan. Það eru þarna fjórar tunnur, hver merkt einum af Orca-hópnum. Lokið á tunnunni hans Eyjólfs hefur verið neglt aftur. Jón Ólafsson er kominn ofan í sína tunnu, þótt fæturnir standi kannski enn upp úr. Og þarna sjáum við þessi djöfulsins slagsmál þar sem Davíð er að reyna að koma Jóni Ásgeiri ofan í sína tunnu (þetta var á hápunkti Baugsmálsins, þegar Davíð lagði fram fjölmiðlafrumvarp sem átti að koma í veg fyrir óbreytta útgáfu Fréttablaðsins og sameiginlegan rekstur þess við Stöð 2, Bylgjuna o.fl.). En hvað með Þorstein Má, spurði ég. Hans tími kemur, sagði maðurinn.

Þannig virkar mafían. Á endanum skiptir öllu hvort þú ert innvígður og innmúraður.Nú ætla ég ekki að halda því fram að Davíð tengist á nokkurn hátt mútugreiðslum Samherja í Namibíu, umfjöllun Kveiks eða yfirleitt nokkru öðru. Hann er að mestu áhrifalaus orðinn þar sem hann situr við skriftir í málgagn kvótagreifa upp á Hádegismóum, hefur lítið vald yfir fólki og oft veikt vald á orðum sínum og hugsunum. En mér varð hugsað til þessarar myndar af sílarplaninu þegar Sjálfstæðisflokksfólk tók þá stefnu um miðja viku að verja Samherja og Þorstein lítið sem ekkert, en leggja alla áherslu á að ekki væri farið að blanda skattsvikum, mútum og undanskotum annarra útgerðarfyrirtækja inn í þetta mál; lína sem VG og Framsókn hafa tekið upp, líka SA og önnur áróðursbatterí auðvaldsins (þ.m.t. Fréttablaðið og þá líklega líka Viðreisn). Ég velti fyrir mér hvort einhver sem væri raunverulega innvígður í Sjálfstæðisflokkinn og hefði verið staðinn að mútum, skattsvikum og undanskotum, hefði ekki verið varinn betur af Sjálfstæðisflokknum, sem veigrar sér ekki við að verja vonda glæpi og skammarlegt fólk, ef það er rétt fólk. Auðvitað er málið stórt, og það kann að vera skynsamlegt mat forystu flokksins að fórna manni í von að geta haldið í kerfið sem fóðrar flokkinn. En samt. Líklega hefði flokkurinn ekki verið svona fljótur að velja þessa línu ef þarna hefði ekki verið maður sem núverandi forysta ólst upp við á Davíðsárunum að tala um sem óvin flokksins. Meira að segja Kristján Þór Júlíusson, æskuvinur Þorsteins Más, sagðist daginn eftir Kveik hafa verið sleginn yfir atferli Samherja í Namibíu og gaf sterkt til kynna að hann ætlaði alls ekki að verja það. Sem innvígður maður þurfti hann að velja á milli flokkslínunnar og vinar síns og valdi auðvitað flokkinn. Þannig virkar mafían. Á endanum skiptir öllu hvort þú ert innvígður og innmúraður. Mafían getur haft gagn af öðru fólki um lengri eða skemmri tíma en hún leggur sig aldrei í hættu við að verja það.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: