- Advertisement -

Bezt: „Aldrei lét dallurinn svona í sjó“

Heima er bezt Í fyrradag (mars 1964) kom það óhapp fyrir, er átti að fara að draga varðskipið Ægi upp dráttarbraut í Slippnum, að skorðurnar létu undan og skipið valt á hliðina í sjóinn. Gengu járnbitar inn í síðu Ægis á tveim stöðum, svo að af varð talsverður leki. Um 5 mínútur liðu unz skipið komst á réttan kjöl aftur, en á meðan héldu menn sér föstum á þilfarinu og engan sakaði.

Kafarar suðu í götin, er sjónum hafði verið dælt upp úr skipinu með hjálp dráttarbátsins Magna. Var Ægir síðan dreginn upp í Slippinn og gekk þá allt að óskum. Þegar blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins komu í heimsókn í Slippinn í gær, lá Ægir aftur við bryggjuna fyrir utan dráttarbrautina. Hann hafði verið settur á flot til þess að hægt væri að hagræða honum á vagninum. Var svo tekið að draga hann upp aftur og gekk allt vel öðru sinni.

Meðan á þessu stóð, átti blaðamaður tal við nokkra menn, sem viðstaddir höfðu verið óhappið daginn áður. Þar á meðal eru tveir starfsmenn Landsmiðjunnar, Björgvin Bjarnason og Grétar Andrésson. 

Ég vann við að sjóða í götin í nótt, sagði Björgvin. Þau voru ekki stór, en þó hættuleg. Ekki mátti tæpara standa, að Magni kæmi til hjálpar. Dælur Ægis höfðu ekki undan og var sjórinn í skipinu orðinn um 4 metra djúpur.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Björgvin Bjarnason og Grétar Andrésson. 

Ég var um borð í Ægi, þegar hann tók að hallast, sagði Grétar. Við vorum niðri í „messanum“ og duttum allir um koll. Messastrákurinn, sem er nýkominn á sjó, var að leggja á borðið. Allt sópaðist af því og strákurinn var á fleygiferð út um allt, til að reyna að ná í mjólkurhyrnu, sem verið hafði á borðinu. „Aldrei lét dallurinn svona í sjó“, sagði hann um leið og hann handsamaði hyrnuna. Síðan tók sjór að streyma ofan í messann og við urðum holdvotir.  

Þeir, sem voru uppi á þilfarinu, duttu hver um annan þveran, hélt Grétar áfram. Þeir gripu í næstu handfestu og héldu sér sem fastast, þar til allt var um garð gengið. Sem betur fer var enginn aftur á bátaþilfarinu, þeim megin sem allt fór á kaf. Margir fengu á sig dálítinn sjó, en enginn meiddist.

Það var mesta mildi, að ekki skyldu verða slys á mönnum, sagði Guðmundur Hjaltason, yfirverkstjóri, sem bar að rétt í þessu. Ég hélt líka, að skemmdirnar yrðu meiri á skipinu. Þegar ég horfði á skipið velta á hliðina, datt mér ekki annað í hug en að hliðin væri úr því. 

Hvað voru margir um borð í Ægi? 

Það voru 16 manns frá okkur, svaraði Guðmundur, og öll áhöfn skipsins.

Greip ekki um sig almenn hræðsla?

Róbert, verkstjóri.

Ekki á meðan þetta var að ske, held ég. Hræðslan kemur venjulega ekki fyrr en á eftir. Tveir voru í smájullu þétt við kinnunginn, sem undir varð. Þegar Ægir valt, kastaði aldan jullunni frá, svo að þeir urðu ekki fyrir skipinu. Þetta var nú dálítið glæfralegt að sjá.

Nú var Ægir kominn alla leið upp dráttarbrautina. — Róbert, verkstjóri, sem staðið hafði í stafni og stjórnað uppdrættinum, var nú kominn á þurrt.

Datzt þú ekki um koll í gær, þegar skipið valt, Róbert? 

Nei, ekki var það nú. 

Þetta gekk vel hjá ykkur núna. 

Já, ágætlega, sagði Róbert. Annars er Ægir það skip í öllum íslenzka flotanum, sem erfiðast er að taka upp í slipp, vegna þess hve djúpristur hann er. Róbert, verkstjóri.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: