- Advertisement -

29 menn fórust – ekki vitað hvað gerðist

Heima er bezt:

„Sú sorgarfregn verður ekki umflúin, að togarinn Max Pemberton hefir farist í Faxaflóa með allri áhöfn, 29 manns. Skipið fór á veiðar í síðustu för sína frá Reykjavík fimmtudaginn 30. des. og er kunnugt að hann stundaði veiðar við Ísafjarðardjúp. 3. jan. kom skipið til Patreksfjarðar og lét í land 1. vélstj., Baldur Kolbeinsson, er hafði slasast á hendi. Var ráðinn maður í hans stað, og lagði skipið upp 35 tn. af lýsi á Patreksfirði, en síðan haldið aftur á veiðar. Er skipið hafði lokið veiðum, kom það aftur til Patreksfjarðar og lét manninn þaðan aftur í land.

Mánudaginn 10. jan. kl. 17 barst útgerð skipsins skeyti svohlj. frá skipstjóranum: „Komum um eða eftir miðnætti“, en kl. 19.40 barst annað skeyti er sagði: „Komum ekki fyrr en á morgun, þ. e. 11. þ. m. klukkan 7.30 á þriðjudagsmorguninn mætti Maxinn á venjulegum sambandstíma skipanna, og sagðist þá lóna innan við Malarrif. Eftir það hefir ekkert samband verið við skipið.

Strax þegar farið var að óttast um afdrif skipsins var hafin leit á víðáttumiklu svæði af skipum og flugvélum, enn fremur var leitað með fjörunum á Snæfellsnesi allt frá Ólafsvík út og suður með nesinu og fyrir Staðarsveit allri, en ekkert sást eða fannst, er gefið gæti bendingu um afdrif þess.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Einu sinni enn knýr sorgin á dyr hjá sjómannaheimilunum. Hér voru á ferðinni menn á besta aldursskeiði, hraustir og heilbrigðir. Höfðu flestir verið á þessu skipi í fjölda ára, skoðuðu það sem sitt hálfa heimili eins og títt er um sjómenn. Yfir marga ískyggilega báru hafði Maxinn borið þá, margt var upplifað ljúft og strangt. Hverja ferðina á eftir annarri höfðu þeir farið um áhættusvæði styrjaldarinnar, þar sem leið íslenski togaranna hefir legið nú um fjögra ára skeið. Glaðir í framkomu með bros á vör, hafa þeir kvatt heimili sín, enda þótt undir byggi í vitund þeirra þungur tregi yfir að skilja við heimilin, því engin vissi hvað í næstu báru beið eða hvenær morðvopn styrjaldarinnar yrðu á vegi þeirra.

Á heimilinu bíður eiginkonan, móðirin, börnin, meðan bíður ástvinurinn er í burtu, kvíðin grefur um sig og nagar hugarrósemina meðan skipið er á hættusvæðinu, loks þegar fréttist af því að það sé komið „út“, léttir aðeins yfir, en þá er eftir að komast heim aftur og í marga daga hvílir hin þunga mara kvíðans á hug ættingjanna. En þegar skipin fara á veiðar er venjan orðin, að telja sér trú um að þá sé hættan miklu minni.

Þegar sjóslysin verða svo svipleg sem þau eru, þar sem stór hópur manna í fullu lífsfjöri hverfur burt úr lífinu í einni andrá, snertir það sárast hina nánustu ættingja þeirra sem farast. Öll þau bönd sem tengdu hina nánu samhygð, eru slitin í einu vetfangi, hjá þeim sem eftir lifa blæða djúp sár sem seint eða aldrei gróa.

En þjóðin öll má einnig minnast þess lengur en örfáa daga þegar slík slys ber að höndum á hafinu. Sjómennirnir íslensku eru sá hluti þjóðarinnar, er leggur sig í beina lífshættu við öflun þjóðarauðsins. Síðan styrjöldin hófst hafa farist þrisvar sinnum fleiri íslenskir sjómenn, hlutfallslega við mannfjölda, heldur en Bandaríkin hafa misst af hermönnum í styrjöldinni. Það er að segja, að manntjón okkar Íslendinga, sem sagðir erum hlutlausir í styrjöldinni, er þrisvar sinnum meira af hennar völdum, heldur en Bandaríkjanna, sem þó telja sig vera að berjast upp á líf og dauða fyrir tilveru sinni.

Á Max Pemberton voru tvennir feðgar og tvennir bræður. Feðgarnir voru Pétur Maack skipstj. og sonur hans Pétur A. P. Maack, sem var 1. stýrimaður. Þorsteinn Þórðarson 2. vélstj., sem var 1. vélstj. þessa ferð og sonur hans Þórður, sem var 2. vélstj. þessa ferð. Bræðurnir voru Björgvin og Guðjón, synir Björns í Ánanaustum (bróðir þeirra Anton fórst með v.b. Hilmir). Og bræðurnir Kristján og Sæmundur Halldórssynir, þriðji bróðir þeirra, Kári, hefir lengi verið á Maxinum, en var í landi þennan túr.

Loftskeytamaðurinn Jón Eiríksson, sem verið hefir á skipinu frá byrjun og siglt svo að segja stanslaust alla styrjöldina, var veikur í landi þessa ferð. Sama var um Helga Jónsson stýrimann, sem einnig hafði verið á skipinu frá byrjun. Var þetta eini túrinn frá stríðsbyrjun, sem hann var ekki með skipinu á veiðum.

Þegar hann kom niður á hafnarbakkann og ætlaði að fara um borð til þess að fara með, varð hann snögglega veikur, svo hann hætti við að fara og varð eftir í landi. 1. vélstj. skipsins Baldur Kolbeinsson meiddist á hendi fyrstu dagana í túrnum og var látinn í land á Patreksfirði eins og fyrr segir, fór hann þaðan með öðru skipi til Rvíkur.

Ekki hafa fundist gögn sem benda til að kafbátar né flugvélar hafi ráðist á Max Pemberton því er sennilegra að dufl hafi grandað togaranum. Ef svo er þá er sennilegast að um bresk rekdufl hafi verið að ræða því þýsku duflin voru annaðhvort lögð á öðrum tíma en þegar Maxinn fórst.

Sem fyrr segir f´órust 29 menn fórust með skipinu:

Greinin er að mestu unnin úr Sjómannablaðinu Víkingi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: