- Advertisement -

Talinn mestur þjófa á Norðurlandi

Hermann Jónasson.

Maður er Tómas nefndur Jónsson. Hann er Skagfirðingur og fæddur í Hegranesi, á Hamri. Hann bjó um eitt skeið á Hofdölum í Viðvíkurhreppi í Skagafirði, og hefir síðan verið kendur við það býli, og kallaður Hofdala-Tómas, eða; Tommi. Tommi er þjófur mikill og talinn mestur þjófur á Norðurlandi, og jafnvel Norðurlöndum, en það hygg ég að séu ýkjur. En hann hefir oft verið dæmdur fyrir þjófnað, og síðast nú fyrir skemmstu, og hefir í vor og sumar hans verið vænst hingað suður í Stein. En Tommi er ókominn enn, og gýs nú sú fregn upp, að Hermann hafi látið kóng náða hann í vor, og undrast þetta margir, að svo frómur mann, sem Hermann er, skuli láta náða slíkan rummung, sem Tommi er, en vegna kunnugleiks þykir mér þetta ekkert undur, og mun eg nú gefa skýring á þessu. Er það þá fyrst, að Tómas er, og hefur ávallt verið, eindreginn Framsóknarmaður, og þótt undarlegt kunni að virðast, einhver mestur virðingamaður allra Framsóknarmanna í Skagafirði. Er hann mjög áhrifamikill í flokki sínum, og jafnvel utan hans, og mun enginn einn maður talinn eins líklegur til þess að koma gamla guðsmanninum frá Mælifelli á þing við næstu kosningar, eins og Tómas; mun Sigfúsi það allmikið áhugamál, að ekki ráði hending ein í annað sinn því, hvort hann kemst á þing eða ekki.

Annars er sagt, að náðunarstefnan sé nú mjög ofarla á baugi hjá hinu íslenska ráðuneyti eins og hjá Dönum1) og að menn hér á landi megi yfirleitt vænta lítilla refsinga við hvaða misgerðum sem er, öðrum en hórdómi. Er það fullyrt, að hórdómsmenn eigi engrar vægðar að vænta hjá Hermanni, heldur gildustu refsingar, svo framarlega að hin svikna eiginkvinna kæri, og ættu nú allar eiginkonur, er fyrir slíku verða, að heimta sökudólga sína dregna fyrir lög og aóm vægðarlaust. Mætti þetta að líkindum verða til þess, að þessir herrar héldi sig betur „á mottunni“, sem kallað er, þegar þeir koma heim aftur úr Steininum, eða frá Sigurði Heiðdal.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: