Í febrúar 1943 varð eitthvert mannskæðasta slys Íslandssögunnar þegar 31 maður fórst við Garðskaga í fárviðri. Samúð þjóðarinnar beindist að sjávarþorpinu Bíldudal sem varð fyrir mestum mannskaðanum. Níu konur og eitt barn voru um borð og fern hjón. Sorgarathafnir voru haldnar víða um land og fjársöfnun var haldin eftirlifendum til styrktar. Umræður um öyggismál sjófarenda urðu pólitískar og heitar.
Það er logndrífa svo ekki sér yfir í Biltuna hinumegin Bíldudalsvogsins. Húsin sem kúra á Búðareyrinni eru snævi þakin og það logar enn á götulýsingunni í rökkrinu. Það er eins og ekki ætli að birta af degi og þó er kominn 15. febrúar. Sól gæti skinið þennan dag um allan bæ ef bjart væri yfir. Það marrar þungt í snjónum á þessari stuttu leið niður á bryggju. Þar liggur Þormóður við bryggjuhausinn. Það tókst að fá hann inn á Bíldudal og þeir ætla að taka fólk með. Það eru svo margir sem þurfa að komast suður; ekki komið skip að taka farþega síðan í nóvember. Forystumenn atvinnulífsins þurfa suður að ræða við eigendur og banka um rekstur liðins árs og horfur hins nýja. Ungt fólk þarf að komast í vinnu, enda uppgrip fyrir sunnan og vantar fólk. Stríðsgróðinn er farinn að segja til sín. Það er svo aldrei að vita hvort Esjan kemur við á leið að norðan; um það fást aldrei nein svör. Ekki kom hún við á norðurleiðinni, enda á hraðferð; ekki komið síðan í nóvember.
Það drífur að fólkið. Skipinu liggur á. Það er með kjöt í lestinni frá Hvammstanga sem þarf að komast í vinnslu fyrir sunnan. Það dregst samt talsvert að skipið geti farið og komið fram undir kvöld þegar það kemst af stað. Þá er allt þetta fólk búið að finna sér einhverja holu um borð. Konurnar fá koju. Yngra fólkið situr í matsal og þar sem það finnur pláss.
Það er áfram logn þegar siglt er út Arnarfjörðinn og komið á Patreksfjörð. Þar eru presturinn í Sauðlauksdal og skipstjóri af öðru skipi teknir um borð eftir talsverða bið og þá eru þau orðin 31 um borð. Þetta er of margt fólk til þess að það geti farið vel um það. Þetta skip er ekki neitt farþegaskip. Þetta er línuveiðari og síldarskip; leigt í strandflutninga af Skipaútgerðinni til að bæta upp siglingaleysi vegna stríðsins.
Það er farið að kula þegar komið er fyrir Blakk og í Grindavík er komið illviðri. Þá er um að gera að komast suður áður en hann nær inn á landið og á siglingaleiðina af alvöru. Þormóður er gangskip eftir því sem gerist og getur verið kominn til Reykjavíkur áður en langt verði liðið á næsta dag. Verst með þessar tafir allar. Skipið hefði eiginlega getað verið komið langleiðina suður núna. En það er vont að átta sig á veðrinu þegar engar eru veðurfréttirnar.
Það er orðið ærið hvasst þegar komið er undir Snæfellsnes og skynsamlegt að leita vars. En þá er eins víst að kjötið verði ónýtt. Alls er óvíst hversu lengi veðrið standi. Þormóður ver sig vel og vindurinn er svo sunnanstæður að það getur orðið skaplegt sjólag þegar komið verður inn á Faxaflóa. Öldurnar ganga yfir skipið í röstinni við Öndverðarnesið og um borð eru flestir orðnir sjóveikir og bera sig illa. Þetta verður mikill barningur áður en lýkur.
Ofviðri
Voðalega er veðrið orðið slæmt! Það rýkur allur flóinn og allt að fjúka sem laust er. Vindurinn vælir um ufsirnar á Stýrimannastígnum og hriktir í húsinu. Ætti Þormóður ekki að vera kominn? Hefði hann ekki átt að vera kominn í morgunn og nú er komið fram yfir hádegi? Það er vont að bíða í óvissu eftir sínum nánustu og vita af þeim í óveðri á hafinu.
Radíóið er fengið að kalla hann upp en fær ekkert svar. Það er snarvitlaust veður og öll skip í höfn sem við strendur eru. Ellefu vindstig á Hellissandi. Það er fárviðri! Varðskipið Sæbjörg er á leið inn Faxaflóann og reynir að ná sambandi en á nóg með sig að komast í heila höfn. Loks næst samband um kvöldmatarleytið. Það er spurt hvenær Þormóður sé væntanlegur: „Slóum Faxabugt. Get ekki sagt um það núna,“ er svarið. Þá er skipið búið að berjast í vaxandi illviðri frá því um nóttina og berst nú í ofsaviðri við stórvaxnar öldurnar. Það er ekki um annað að ræða en að láta skipið horfa beint upp í og áfram verður það að halda því ekki tjóir að slá undan. Það er bara að vona að stefnan verði ekki of grunnt og skipið lendi í Garðskagaröstinni.
Um hálfellefu hefur skipið tekið í sig mikinn sjó, því í skeyti frá því segir: „Erum djúpt úti af Stafnesi. Mikill leki kominn að skipinu. Eina vonin er að hjálpin komi fljótt.“ Það er þá komið vestur úr röstinni og veðurhamurinn ólýsanlegur og öngþveitið og háskinn hefur fangað hverja sál. Brotsjór hefur riðið yfir skipið og tekið burtu björgunarbátinn og flekann og svipt burtu öllu sem enn var ofanþilja. Það allt rak við Melaberg rétt við Hafnir. Áfram heldur barátta skipverjanna við að halda skipinu á floti í nokkra klukkutíma en hún verður árangurslaus.
Sjórinn verður brátt svo mikill í skipinu að vélin stöðvast, og þá er stríðið tapað. Vélarvana skip á sér varla neina von í slíkum hamförum náttúrunnar. Enn ríður brotsjór yfir og brýtur af brúna og stjórnlaust berst Þormóður með stormi og straumi í norðausturátt og að lokum upp á Garðskagaflösina þar sem hann brotnar. Flakið berst í sjólokunum inn með landi og hverfur þar í djúpið. Klukkan er 3:13 aðfaranótt 18. febrúar. Allt þetta fólk lætur líf sitt. Ekkert þeirra var til frásagnar um þann mikla hildarleik sem háður var né þá angist sem heltók hjartarætur mæðra og feðra um borð um hvernig börnum þreirra sem heima biðu ótíðindanna mundi farnast án forsjár þeirra.
Örlög ráðin
Daginn eftir er veðrið að ganga niður og leit er hafin. Þeir sem vilja vita þurfa ekki að spyrja. Þungt er yfir mönnum á Alþingi, skrifstofu Skipaútgerðar ríkisins og víðar, og blaðamenn safna sér upplýsingum um hverjir hafi verið um borð í Þormóði. Var þetta virkilega svona margt fólk? Þrjátíu og einn, þar af níu konur og lítill drengur.
Flugvélar bandaríska hersins og „Íslenska flugvélin“ fljúga yfir svæðið og skip sigla á líklegar siglingarslóðir Þormóðs. Togarinn Gyllir finnur brak úr Þormóði og lík konu. Með því var staðfesting fengin á verstu grunsemdum. Á fjörum á Akranesi og Mýrum finna menn síðar reka og á sjó meira brak. Næstu daga og allt fram eftir sumri finna menn lík og verða þau alls níu sem finnast.
Heima á Bíldudal bíður fólkið milli vonar og ótta fimmtudaginn 18. febrúar. Síminn er lokaður og það býður fólkinu hið versta í grun. „Engar fréttir enn sem góðar geta talist,“ segir símstöðvarstjórinn. Fólkið horfir vanmegna út yfir sjóinn sem er alls ekki hættulegur að sjá þessa stundina.
Bátur kemur eftir miðjan dag norðan yfir fjörð og sóknarpresturinn á Hrafnseyri gengur á land og hefur lengri og þyngri göngu en hann átti nokkurn tíma farna. Hann kemur fyrst á prestssetrið og flytur þar þær fréttir að heimilisfaðirinn sé drukknaður sem og þau öll sem voru með honum á skipinu. Samt fer prestsfrúin með honum á næsta stað þar sem eru samankomin átta systkin sem hafa misst foreldra sína og þrjú þeirra enn á barnsaldri. „Hvernig getur Þormóður hafa farist með öllu þessu fólki,“ er spurt.
Svo halda þeir leiðar sinnar, presturinn sjálfur ókunnugur fólkinu með öllu og sá trausti fylgdarmaður sem honum var fenginn til leiðsagnar, og báru þessa ógnarfregn um bæinn. Í dyrum mættu honum spyrjandi augu full ótta og áhyggju. Æðruleysið og stillingin kom ungum prestinum reyndar á óvart. Svona fregnir höfðu áður borist um þetta þorp sem önnur við ströndina. Þær eyddu óvissunni, settu viðfang fyrir tilfinningalífið. Komst enginn af? Nei, enginn komst úr þessum háska.
Það var hægt að fara að syrgja, takast á við óbærilegan missinn.
Það lagðist dimmur skuggi yfir Bíldudal. Allir höfðu misst. Kona skipstjórans missti hann frá tveimur ungum sonum og foreldra sína að auki. Systir hennar þau líka og einnig tengdamóður sína, annan mág og svilkonu. Þau sem fórust áttu 56 börn.
Í kjölfarið kom slæm umgangspest og við henni var mótstöðuaflið skert. Svo komu líkin heim, þrjú saman fyrst og svo eitt og eitt. Jarðarfarir fram á sumar. Sárin ýfðust upp. – Það þurfti að ráða nýja menn til forystu. Það vantaði prest, kaupfélagsstjóra, tvo kaupmenn, framkvæmdastjóra, mömmur og pabba og ömmur og afa, eiginmenn og unnusta. Það var reyndar ekki hægt að ráða í allar stöðurnar! Það átti þó eftir að verða hjálp í prestinum og eftir árin hans sautján á Bíldudal var hann ekki lengur ókunnugur né heldur að nærvera hans vekti annað en öryggi og elsku. Séra Jón Kr. Ísfeld hét hann.
Eftirleikurinn
Miklar umræður urðu í þjóðfélaginu um Þormóðsslysið. Blöð allt í kringum landið birtu fréttina um það og nöfn hinna látnu. Þeirra var minnst í sameinuðu Alþingi og í Dómkirkjunni var minningarathöfn 5. mars með biskup landsins í ræðustól að stórmenni og fulltrúum annarra þjóða viðstöddum. Hluttekning ríkis og þjóðar var ákaflega virðuleg og vottur um að þjóðarsorg ríkti. Það voru líka fleiri sem höfðu horfið í vota gröf. Sjómenn drukknuðu á næstum dögum og stríðið sá í raun fyrir fleirum hér að tiltölu en í sumum stríðslöndunum. Hildarleikurinn í Evrópu setti svo sinn dökka skugga sem bakgrunn fyrir hörmungum þjóðarinnar.
Umræður urðu um öryggismál sjómanna og dómsrannsókn fór fram á ástæðum slyssins. Hún leiddi í ljós að leki hafði verið vandamál á siglingum skipsins hér við land og þrátt fyrir gagngerar endurbætur varð ekki komist fyrir hann. En um sitthvað annað var ekki fjallað og verður ekki heldur gert hér.
Aldrei var talað um að það hefði verið ábyrgðarhlutur að hafa svo margt fólk um borð. Því réð þörfin og ástandið í stríðinu. Engar voru veðurfregnirnar af stríðshagsmunum og heldur engar skipaáætlanir af öryggisástæðum. Allt þetta fólk þurfti nauðsynlega að komast suður og óvíst um næstu ferð sem félli. Hún reyndist svo verða sex dögum síðar, en það var alls óvíst þá og viðkoman þó ekki án eftirgangsmuna. Fjórir menn sem áttu annað far víst tóku þá ákvörðun að fara heldur með Þormóði. Menn létu ekki óttann stjórna sér heldur nauðsynina. Enginn virðist hafa hætt við för af því að skipið væri svo mannmargt. Í þessum anda var hleypt um borð þeim sem með vildu fara. Enginn fór í land á Patreksfirði, þar bættust við tveir farþegar, reyndur skipstjóri og prestur.
Árin liðu
Hjónabönd urðu til. Börn fæddust og við fengum nöfn hinna látnu að bera á vit ókominnar framtíðar sem núna er orðin okkar dagur. Lífið hélt áfram, en ekki sinn vanagang. Svo margt var breytt. Sorgarsárin blæddu og sársaukinn blindaði sýn. Missirinn skerpti hins vegar skilninginn á dýrmæti lífsins. Það var litið eftir okkur og hlúð að lífinu eftir föngum.
Þormóðsslysið gleymdist þó aldrei svo lítið sem um það var nú talað í raun. Það voru því kalblettir á mannlífinu hér og hvar, en víða blómstraði þó umhyggjan, og áhuginn á því að Bíldudalur efldist var brennandi. Það varð eiginlega ófært að rífast mikið um hreppspólitík. Það var ekki boðinn fram nema einn listi í sextán ár. Þegar svo að því kom töldu menn það móðgun við sig og margir fluttu burtu þegar gamli listinn missti meirihlutann 1970. Kannski var það útsog þeirrar heljaröldu sem braut Þormóð á Garðskagaflösinni kl. 3:13 18. febrúar 1943.
Tileinkun
Þormóður var að uppruna ekki sterkt skip. Á árinu 1942 var sett í hann ný vél, yfirbygging, hvalbakur og spil. Hann var allur styrktur og því orðinn mun öflugri þegar hann svo fór sína fyrstu ferð. Þó var hann enn lekari „en til þrifa mátti telja“.
Því var haldið fram að slæmt ástand hans hefði ráðið örlögum hans. Fárviðrið hefði þó fyrir löngu átt að gera út af við hann ef hann hefði verið svo vanbúinn sem orð var á haft. Dugnaður skipverjanna og sjómennska á hæsta stigi dugði vel og dugði lengi.
Við sem ekki höfum komist í slíka raun getum ekki gert okkur í hugarlund hvílík ósköp ganga á í svona veðri og hvílíka árvekni þarf til þess að halda skipi upp í ölduna og snúa því við brotsjóum. Þetta 100 tonna skip hélt út í sólarhring í fárviðri sem enginn lagði út í honum til bjargar, og voru hamfarir þess af því tagi sem fyrirkomið hefur miklu stærri skipum.