- Advertisement -

Barnasalar og barnaþjófar á Íslandi

SAGAN Af og til heyrir maður fólk hafa það í flimtingum að á miðöldum hafi íslenskum börnum verið stolið af enskum mannræningjum og þau seld til að þræla í tin og kolanámum á Englandi. Fyrir þessum sögum er flugufótur því árið 1425 lét fulltrúi Danakonungs á Íslandi hafa eftir sér um enska duggara að „þeir ræna einnig fjölda fólks, börnum og unglingum á Íslandi, ýmist með ofbeldi eða með að ginna einfalda, auðtrúa foreldra til þess að láta þau af hendi fyrir smá gjafir og flytja þau síðan rænt eða eða keypt til Englands og halda þeim þar í eilífri ánauð til að þjóna sér en af þessum sökum verður landið Ísland fólklaust og leggst á mörgum stöðum í eyði.“

Íslendingum hefur þá þótt þetta vera alvarlegt vandamál og settu lög gegn því hátterni fólks að gefa frá sér börnin sín. Í Lönguréttarbót segir; „..en þeir íslenskir menn sem burt gefa sín börn eða selja útlenskum, svari þar fyrir sem íslensk lögbók vottar.“

Auðvitað var talsvert um að Íslendingar sem áttu þess kost, drifu sig í burtu úr hallærinu og fátæktinni sem var afar almenn á Íslandi á 15. og 16 öld. Til eru m.a. áreiðanlegar heimildir um að í hafnarborginni Bristól árið 1484 voru fjörutíu og níu frá Íslandi af þeim fimmtíu og einum útlendingi í þjónustu Englendinga í borginni.

Og einmitt á þessum tíma bera útlendingar sem hingað komu Íslendingum ekki góða söguna hvað barnelsku þeirra snertir. Þeir fullyrtu að Íslendingar seldu hunda sína dýru verði en gæfu börnin sín hverjum þeim sem við vildi taka. Svo rammt kvað að þessari bábilju að umsögnin um Ísland á frægu hnattlíkani Behaims frá 1492 var: „Hjá þeim er siður að selja hunda dýrt en börn sín gefa menn kaupmönnum og fela Guði á vald svo að þeir fái brauð handa þeim sem eftir eru.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

…að foreldrar hafi gert hvað sem er til að bjarga börnum sínum…

Til þess er einnig tekið að Jón Gerreksson Skálholtsbiskup staddur í borginni Lynn á Englandi árið 1429 sá ástæðu til að kvarta við borgaryfirvöld yfir því að menn í borginni flyttu inn börn frá Íslandi og seldu þau á ómannúðlegan hátt sem fanga. Þarna er átt við þrælasölu og ekkert annað.

Þegar að helstu heimildirnar um þessi barnarán Englendinga á Íslandi á 15. og 16, öld eru skoðaðar í ljósi þeirrar viðvarandi fátæktar og landlægs hungurs sem ríkti í landinu í kjölfar þeirrar óskaplegu fólksfækkunar sem varð er Svartadauði gekk yfir 1402-4 og svo aftur í plágunni 1494-95, má leiða að því líkur að foreldrar hafi gert hvað sem er til að bjarga börnum sínum frá því að deyja úr hungri og vosbúð en jafnframt hafi óprúttnir duggarar og kaupbraskarar nýtt sér ástandið og numið á brott héðan börn og unglinga í einhverjum mæli.

Myndin sem fylgir er af sex ára Josie og Berthu og Sophíu sem var 10 ára árið 1921 þegar myndin var tekin. Þær unnu við að verka skelfisk fyrir Maggioni Canning Company, Port Royal, í South Carolina. Ég man sjálfur eftir því að hafa staðið 10 ára við að slíta humar upp úr stömpum á planinu fyrir framan frystihúsið Jökul í Keflavík, en því er ekki saman að líkja. Obbinn af krökkum bæjarins var þarna saman kominn til að vinna sér inn vasapeninga og vinnutíminn var ekki langur.

Ég hafði ekki geð í mér að birta nútímamyndir frá kóbalt námunum í Kongó.

Svanur Gísli Þorkelsson vann greinina og skrifaði.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: