- Advertisement -

Trippa Sigga: „Ég var ekki nærri dauð“

Í júlí árið 1963 var gerð umfangsmikil leit að hestakonunni Trippa Siggu sem týnd var á miðhálendinu í miklu óveðri. Hún fannst eftir fimm daga og gerði hún þá lítið úr þeirri hættu sem hún var í en sagði leitarmönnum og blaðamönnum undarlega frásögn af gervimönnum sem höfðu handsamað hana.

Í inniskóm og án tjalds

Hin 62 ára gamla Sigríður Jóna Jónsdóttir var nokkuð óstyrk í fótunum þegar hún ræddi við fréttamenn 27. júlí, og þurftu björgunarsveitarmenn að styðja við hana. „Ég var ekki nærri dauð,“ sagði hún. „Annars hef ég ekki sofið nema hænublund á þúfu síðustu næturnar.“

Sigríður, sem búsett var í Reykjavík, fór ein á hesti sínum frá Kalmanstungu í Hvítársíðu og áleiðis að Hveravöllum þann 20. júlí. Skömmu eftir að hún hélt af stað gerði aftakaveður, fyrst regn en síðan snjókomu. Sigríður var mjög vön hestakona og kunnug þessari leið en þegar hún skilaði sér ekki á Hveravelli voru sendar út leitarsveitir frá Slysavarnafélaginu og Hjálparsveitum skáta og einnig var leitað úr flugvél. Talið var útilokað að hún hefði villst af leið og því óttuðust menn að eitthvað alvarlegt hefði hent hana. Hún var aðeins klædd í tvíhneppta kápu, reiðbuxur og inniskó. Hún var hvorki með tjald né svefnpoka.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Trippa Sigga:

„Ég hitti þá nú ekki eiginlega í lifandi mynd, en þeir voru þarna og kinkuðu ákaft kolli. Svo heldur fólk að ég sé rugluð. Gekk alla leið á Hveravelli á skónum. Matarlaus. Auðvitað var mér orðið kalt. Ég kallaði á hjálp og þá komu þeir.“

Það var mikið fagnað þegar hún loks fannst þann 26. júlí við Skammá hjá Arnarvatni. Veiðimenn urðu varir við hest hennar, hinn 22 vetra jarp Ljóma, og fundu síðan Sigríði sjálfa þar sem hún sat skammt frá tjöldum þeirra. Fóru þeir með hana í tjaldið, hlýjuðu henni og gáfu henni að borða. Hún var þá orðin matarlaus og hrakin en enn þá furðu heilsuhraust. Eftir að hún hafði jafnað sig nokkuð hjá veiðimönnunum vildi hún halda áfram á Ljóma til Hveravalla en féllst þó á að fara með leitarmönnum aftur til Reykjavíkur.

Gervimenn með vítamínsprautu

Sagan sem Sigga sagði af ferðum sínum var nokkuð undarleg og mögulega til komin vegna hungurs og þorsta. Fyrstu nóttina gisti hún á stað sem heitir Álfakrókur en daginn eftir týndi hún Ljóma og öllum farangri sínum og hélt af stað gangandi í inniskónum. Sagðist hún hafa hitt menn við Þjórsárvirkjun sem voru að byggja „lóranstöð“ og tóku þeir hana til fanga. Vildu þeir ekki veita henni neina aðstoð nema á sjúkrahúsinu í Keflavík. Sagði hún jafnframt að þetta hafi ekki verið alvöru fólk heldur gervimenn, sem gátu brosað, hneigt sig og sagt já.

Þessa lóranstöð þar sem hún var í haldi nefndi Sigga Glerskóg og þar voru segulmagnaðar plötur sem hún gat fyllt krafti með því að styðja svipu sinni á þær, eins og og hún sagði í samtali við Morgunblaðið. En gervimennirnir voru ekki sáttir við þetta og tóku af henni svipuna. Að lokum ákváðu þeir að sleppa Siggu og gáfu henni vítamínsprautu svo hún yrði ekki hungurmorða á leiðinni inn á Hveravelli. Einnig þeyttu þeir henni af stað með segulkrafti yfir sexþætta girðingu. Hún sagði:

„Ég hitti þá nú ekki eiginlega í lifandi mynd, en þeir voru þarna og kinkuðu ákaft kolli. Svo heldur fólk að ég sé rugluð. Gekk alla leið á Hveravelli á skónum. Matarlaus. Auðvitað var mér orðið kalt. Ég kallaði á hjálp og þá komu þeir.“

Reiðiraddir

Leitin að Siggu hafði verið aðalfréttin á landinu og öll þjóðin andvarpaði af létti þegar hún fannst tiltölulega heil á húfi. Þó heyrðust þær raddir, til dæmis í leiðara Vísis, sem skömmuðu Sigríði fyrir að hafa farið svo vanbúna af stað. Þetta hafi verið gríðarlega kostnaðarsamt og sett leitarmenn í hættu. Tveimur vikum eftir að Sigríður komst í leitirnar var hún stöðvuð þegar hún ætlaði aftur upp á Hveravelli til að leita farangurs síns. Árið 1966 fannst hins vegar farangurinn hennar og hnakkurinn fyrir tilviljun. Ljómi var felldur árið 1965 og Sigríður lést árið 1994.

Úr Heima er bezt. Áskrift pantist með því að senda okkar upplýsingar á sme@sme.is. Það er nafn, kennitölu og heimilisfang.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: