- Advertisement -

Mér er alveg sama hvaða kaup ég fæ

Myndin er frá Ísafirði.

Jóhanna Egilsdóttir, formaður verkakvennafélagsins Framsóknar, hefur starfað ósleitilega í verkalýðshreyfingunni um áratugi og stjórnar enn stærsta verkakvennafélagi landsins, þótt hún sé orðin sjötug.

Hér er viðtal úr Alþýðublaðinu frá á árinu 1952:

Hvernig voru störf og kjör verkakvenna um það leyti sem verkakvennafélagið var stofnað?

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Blessaður minnstu ekki á. það. Þetta voru mestu sultarkjör. Félagið var stofnað 1914, og þá unnu verkakonur aðallega við uppskipun og fiskverkun. Kaupið var 15 aurar um tímann og sama þótt unnið væri á helgum dögum eða um nætur. Það var alltaf byrjað kl. 6 á morgnana og kaupið það sama, hvað sem unnið var. Þær báru, kol, timbur og jafnvel salt frá uppskipunarbátunum, og í fiskvinnunni voru þær við stöflun, breiðslu og vöskun. Alltaf held ég, að vaskað hafi verið inni í einhverjum kofaskriflum, en vatnið alltaf kalt og stundum frosið á kerjunum. Við þetta unnu bæði giftar og ógiftar konur. Þær giftu urðu að fara út frá börnunum til að auka tekjur heimilisins, því að tekjur heimilisfeðranna hrukku ekki fyrir nauðþurftum og var þó farið spart með“.

Tóku konurnar því ekki fegins hendi, þegar félagið reyndi að hækka kaup þeirra og fá vinnuskilyrðin bætt?  

,,Ég held þær hafi verið ánægðar, þegar kauphækkunin var fengin. En tregar voru þær margar að ganga í félagið og standa saman, ef reyndi á samtökin. Vonleysið var svo mikið. Ef þær voru spurðar að því, hvort ekki ætti að reyna að fá kaupið hækkað, var viðkvæðið: Það þýðir ekki neitt. Þetta hefur alltaf verið svona og verður alltaf svona. Og sumar sögðu: Mér er alveg sama, hvað kaup ég fæ, ef ég bara fæ vinnu. Það kom fvrir, að sumar héldu áfram að vinna, þótt félagið væri í verkfalli, en þá færðu atvinnurekendur sig upp á skaftið og lækkuðu við þær kaupið. Á þessu lærðu þær mikið og það var ekki fyrr en fólkið hafði skilið gildi samtakanna, að nokkrar verulegar kjarabætur náðust fram.“

Þetta hefur breyst mikið frá fyrstu árum félagsins.

„Já, það hefur breyst mikið, en það er mikið eftir enn, skal ég segja þér. Það er farið að bera mikið á því aftur, að giftar konur, sem ekki eiga heiman gengt, fari út til að vinna, ef þær þá geta fengið vinnu, af því að tekjur eiginmanna þeirra hrökkva ekki fyrir nauðþurftum eins og hér fyrrum eða hann er atvinnulaus. Enn fá konur ekki sama kaup fyrir sömu vinnuafköst og karlmenn. Ekkjur, sem hafa fyrir börnum að sjá, fá enn ekki nægan stuðning, til þess að framtíð barnanna sé tryggð, enn vantar mæðralaun, og er brýn nauðsyn, að frumvarp um mæðralaun, sem legið hefur fyrir alþingi nái fram að ganga. Ég tel það mikið réttlætismál að skattleggja hjón hvort í sínu lagi, svo að fólki sé ekki hegnt sérstaklega fyrir það að stofna hjónaband og heimili.“

Þess má geta að seinna kom út viðtalsbók við Jóhönnu Egilsdóttur, sem hét 99 ár. Hún var 99 ára þegar bókin kom út. Stórmerkileg bók. Jóhanna var amma Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrverandi forsætisráðherra með meiru.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: