- Advertisement -

Heima er bezt: Skall á þokusúld

Það var sumarið 1918. Mótorbátnum Snorra var stýrt út Eyjafjörð. Ferðinni var heitið til Jan Mayen. Einn af leiðangursmönnum var Freymóður Jóhannsson listmálari, og er hér stuðzt við frásögn hans, er hann flutti í útvarpið fyrir nokkrum árum.

Þá málaði Freymóður myndina af Snorra á Norðurvík á Jan Mayen, og sést eldfjallið Beerenberg (Bjarnarfjall) í baksýn. Leiðangur þessi var farinn til öflunar á rekaviði, þar sem mikill skortur var orðinn á timbri í landinu af styrjaldarástæðum. Leiðangursstjóri var Gunnar Snorrason frá Akureyri, en aðrir í áhöfn Snorra voru: Rafn A. Sigurðsson skipstjóri, Friðrik Steinsson stýrimaður, Axel Jóhannsson og Jón Eðvaldsson vélamenn, Barði Barðason, síðar kunnur aflaskipstjóri, var kokkur. Þorvaldur Jacobsen háseti og Jóhan Svenson, sænskur maður, smiður og trjáviðarsérfræðingur leiðangursins.

Farið var frá Akureyri. Fyrsta áfanga leiðarinnar sigldi Snorri í gegnum vaðandi síld, en norðvestur af Grímsey skall á þokusúld, sem hélzt alla leið til Jan Mayen. Klukkan tvö aðfaranótt 29. júlí lagðist Snorri svo á Norðurvík eftir að hafa siglt norðvestur fyrir eyna í rúma viku, eða til 6. ágúst var unnið að viðartöku á Norðurvík, Timburvík og Maríuvík.

Tvö skip hittu þeir við eyna á þessum tima, gufuskipið Ludolf Eyde, sem var á hákarlaveiðum, og andarnefjubát sem Svalbard hét, bæði norsk. Enga menn hittu þeir á sjálfri eynni, en skoðuðu hýbýli fyrrverandi leiðangurs- og veiðimanna, er höfðu haft þar vetursetu. Freymóður ferðaðist nokkuð um eyna fótgandi, gekk m. a. yfir hana þvera til Rekavikur, málaði myndir og safnaði grösum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Frá Jan Mayen hélt Snorri heimleiðis um miðnætti þann 7. ágúst. Djúpt út af Húnaflóa fóru norðlenzku fjöllin að koma í ljós þann 9. ágúst. Eftir viðkomu á Siglufirði kom Snorri svo til Akureyrar eftir nítján sólarhringa útivist. Þegar ferð þessi var, var Jan Mayen ónumið land, og þurfti ekkert leyfi til viðartöku. Nokkrum árum síðar öðluðust Norðmenn yfirráð yfir eynni, sem þeir hafa enn í dag.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: