
„Málþóf um veiðigjöld er enn í fullum gangi á Alþingi. Um hvað snýst málið? Jú það er um að hækka veiðigjald á kíló af þorski úr 29 krónum í 46 krónur og veiðigjald á uppsjávarfiski miðist við 80% verð á norskum fiskmörkuðum. Fara úr verðviðmiði í reiknireglunni um veiðigjald sem fæst þegar útgerðir versla við sjálfa sig í verð frá mörkuðum. Það er nú öll breytingin,“ skrifaði Oddný Harðardóttir.
„Næstum allir kjósendur vilja sjá þetta frumvarp verða að lögum enda er breytingin gegnsærri og réttlátari en það sem nú er í gildi.
Súluritið setur fyrirhugaðar breytingar í samhengi. Útgerðarmenn leigja kílóið af þorski sín á milli á 500 krónur í þessum mánuði. Fiskframleiðendur og útflytjendur (SFÚ) gerðu tilboð í desember í fyrra og vildu þá borga 150 krónur í veiðigjald fyrir kílóið af þorski. Landssamband smábátaeigenda hafði þá þegar gert tilboð upp á 100 krónur í kílóið.
Frumvarpið leggur til 46 krónur á meðan veiðigjaldið er núna 29 krónur.
„Ég spái því að umræðan á Alþingi gufi upp þegar stjórnarandstöðuflokkarnir horfast í augu við mikið fylgistap í næstu Gallupkönnun,“ skrifaði Oddný.