„Á næstu dögum mun ég leggja fram frumvarp á Alþingi sem felur í sér mjög róttæka einföldun leyfisferla á sviði umhverfis- og orkumála. Þar verður mælt fyrir um að verkefni í orkunýtingarflokki njóti sérstakrar forgangsmeðferðar, en við ætlum líka að breyta lagaumgjörð rammaáætlunar til að tryggja aukna festu í ferlinu,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra á Alþingi fyrr í dag, þegar rætt var um orkumál og stöðu garðyrkjubænda.
„Við ætlum að binda það í lög að stjórnvöld setji stefnu um raforkuöflun á fjögurra ára fresti með tölulegum markmiðum og að tekið sé mið af þessari stefnu í öllu ferli rammaáætlunar við röðun virkjunarkosta. Þetta er grundvallarbreyting. Hér erum við að ryðja burt hindrunum og liðka fyrir framkvæmdum og það er skýr samfella í því sem við erum að gera. Um leið erum við að fara að losa um raforku, sem hingað til hefur verið nýtt til húshitunar, með því að ráðast í stærsta átak í leit og nýtingu jarðhita sem ráðist hefur verið í á þessari öld.“
Í lok ræðu sinnar sagði Jóhann Páll: „Það er einhugur um þetta í ríkisstjórn. Þetta var rætt í ríkisstjórn núna í vikunni og ég er sannfærður um að þetta fjárfestingarátak muni skila sér í lægri orkureikningum fyrir bændur, í minni niðurgreiðsluþörf af hálfu ríkissjóðs og í auknum orkusparnaði fyrir samfélagið allt og auðvitað halda aftur af verðinu á góðu íslensku grænmeti. Ég hlakka til að kynna betur útfærslu þessara aðgerða og þessa fjárfestingarátaks í næstu viku. Þetta er ákvörðun sem tekin hefur verið á vettvangi ríkisstjórnar og ég hlakka til að fylgja þessu eftir.“